Fyrsti eiginlegi heimaleikurinn

Óskar Bjarni Óskarsson og Anton Rúnarsson.
Óskar Bjarni Óskarsson og Anton Rúnarsson. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

„Við erum spenntir. Það er alltaf gaman að spila hérna heima og þetta er í sjálfu sér fyrsti leikurinn heima,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik, á rafrænum blaðamannafundi félagsins.

Valur fær þýska liðið Melsungen í heimsókn á Hlíðarenda í 4. umferð F-riðils Evrópudeildarinnar í kvöld.

„Við spiluðum fyrsta eiginlega heimaleikinn í Kaplakrika þar sem FH-ingar og Valsmenn gerðu þetta stórkostlega saman.

Nú erum við hérna í N1-höllinni og það er eftirvænting. Þetta er topplið í Þýskalandi með marga frábæra leikmenn. Við erum klárir,“ sagði Óskar Bjarni.

Eigum inni á flestum vígstöðvum

Valur hefur farið nokkuð rólega af stað í úrvalsdeildinni á tímabilinu en er þó í þriðja sæti með tíu stig.

„Við höfum kroppað í stig hér og þar en eigum inni á flestum vígstöðvum. Það er þannig séð engin krísa en við viljum klárlega bæta okkur og verða betri á flestum vígstöðvum. Við erum svona lala ánægðir.

Það eru einhverjar breytingar hjá okkur en við getum ekki alltaf falið okkur á bak við það. Það tekur smá tíma fyrir okkur að þroskast og verða betri og ég held að það verði þannig hjá okkur í vetur. Ég held að þetta verði góður vetur,“ sagði hann.

Það sem við vildum

Með því að taka þátt í riðlakeppni Evrópudeildarinnar þarf Valur að spila á þriðjudögum og föstudögum í nokkrar vikur. Spurður hvernig hafi gengið að halda leikmannahópnum heilum og einbeittum sagði Óskar Bjarni:

„Það hefur gengið ágætlega. Við ætluðum okkur að bæta okkur í þessu frá því við vorum í þessari keppni síðast. Það er alltaf svolítið af ferðalögum fyrir Íslendinga. Svo erum við með námsmenn, vinnandi menn og annað.

Endurheimtin er því alltaf svolítið flókin en einbeitingin er í sjálfu sér ágæt. Þú æfir ekkert mikið þannig að maður þarf aðeins að liggja yfir vídeóum og leikmenn þurfa líka svolítið að gera vinnuna heima.

Þeir eiga að verða betri og betri í því. Við sjáum bara hvernig það verður en mér finnst þetta hrikalega gaman. Ég held að strákunum finnist það líka þegar þeir eru bara að spila. Þú ert að spila á móti alvöru mótherjum.

Þú ert að fá Melsungen, Porto og Vardar, þetta er það sem við vildum og þar sem félagið á að vera. Mér finnst við alltaf eiga að stefna hærra og hærra og verða betri og betri í þessu, að ná að vinna alvöru Evrópuleiki saman og verða enn betri í deildinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka