Björgvin Páll Gústavsson, markvörður karlaliðs Vals í handknatleik og markaðsstjóri félagsins, lofar mikilli skemmtun fyrir og á meðan leik liðsins gegn Melsungen frá Þýskalandi í riðlakeppni Evrópudeildarinnar stendur á Hlíðarenda í kvöld.
„Þetta verður held ég geggjaður leikur, innan vallar sem utan. Þetta er Evrópukvöld á Hlíðarenda, fyrsta Evrópukvöldið okkar hér á þessu tímabili. Logi Pedro, Elvar og Joey Christ hita upp í „fan-zone.“
Ljósashowið frá því Bláa lónið var með árshátíð er ennþá hérna uppi, það er alvöru. Það verður alls konar húllumhæ. Þetta verður veisla innan vallar sem utan,“ sagði Björgvin Páll á rafrænum fréttamannafundi Vals.
Valur stóð fyrir Evróputvennu með FH í Kaplakrika fyrir tveimur vikum en að sögn landsliðsmarkvarðarins verður dagskrá Vals í kvöld frábrugðin því sem var þá.
„Þetta verður okkar. Til dæmis kemur Anton Rúnarsson [aðstoðarþjálfari] núna og leikgreinir andstæðinginn. Hann sýnir áhorfendum hverju þeir eiga von á. Þá mætirðu undirbúinn á völlinn, þú veist hvaða leikmenn þetta eru, þú veist hvað er að fara að gerast og aðeins um okkar leikplan.
Það eru svona innherjaupplýsingar sem þú færð eiginlega hvergi annars staðar. Það er einn skemmtilegur partur af þessu. Svo er ákveðið orkustig sem fylgir því að spila á Hlíðarenda. Evrópukvöldin hafa verið geggjuð.
Því meira sem er í gangi hérna uppi, því meiri sem stemningin hefur verið, þá spilum við yfirleitt bara betur. Við höfum stækkað við það og ég á von á því að við gerum það líka í kvöld.
Vonandi spilum við það vel að við náum í alvöru úrslit á móti Melsungen, sem er besta liðið í Þýskalandi í dag. Ef þeir ætla að spara einhverja leikmenn þá tökum við því sem vanvirðingu og refsum fyrir það,“ sagði Björgvin Páll.