Líklega einn mesti stríðsmaður sem við eigum

Elvar Örn Jónsson og Óskar Bjarni Óskarsson.
Elvar Örn Jónsson og Óskar Bjarni Óskarsson. Ljósmynd/Samsett

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik, er spenntur fyrir því að mæta þýska liðinu Melsungen öðru sinni í F-riðli Evrópudeildarinnar á Hlíðarenda í kvöld.

Melsungen er á toppi þýsku 1. deildarinnar og með liðinu leika Íslendingarnir Elvar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson.

Fyrri leiknum í Þýskalandi lauk með stórsigri Melsungen, 36:21.

„Þeir spila góða vörn og eru vel þjálfaðir. Í þessari deild í Þýskalandi þarftu bara alvöru hóp. Þeir eru með mikið af landsliðsmönnum og mikið af góðum leikmönnum.

Við vitum fyrir hvað þeir standa og við þurfum að fókusa meira á okkur. Við viljum gera mun betur á öllum vígstöðvum en við gerðum í Þýskalandi, það er klárt mál.

Ég held líka að fyrir áhorfendur að fá topplið hingað og fyrir strákana okkar að máta sig við þá bestu er þetta bara stórkostlegt tækifæri,“ sagði Óskar Bjarni á rafrænum fréttamannafundi Vals.

Má stíga upp í öðrum leikjum

„Það er líka gaman að fá Íslendinga hingað. Það er gaman að fá Elvar Örn og Arnar. Elvar er líklega einn mesti stríðsmaðurinn sem við eigum. Hann spilar 60 mínútur, vörn og sókn, er með frábært viðhorf, æfir eins og vitleysingur og er góð fyrirmynd.

Þetta er maður sem við eigum að ýta upp sem fyrirmynd. Arnar finnst mér hafa staðið sig mjög vel. Við erum náttúrlega búnir að skoða alla leikina þeirra í Þýskalandi.

Hann hefur staðið sig vel og fyrir hönd landsliðsins vill maður að hann stígi enn meira upp. Kannski ekki á morgun en í öðrum leikjum! Svo eru þarna leikmenn frá Spáni og Danmörku, hörkuleikmenn sem verður gaman að sjá,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka