Skrítið að heyra íslenskuna í stúkunni

Arnar Freyr Arnarsson í færi í kvöld.
Arnar Freyr Arnarsson í færi í kvöld. mbl.is/Hákon

Melsungen vann fimm marka sigur á Val í Evrópudeildinni í handbolta karla í kvöld. Í liði Melsungen leika tveir íslendingar en það eru þeir Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson.

Mbl.is náði Arnari Frey í viðtal strax eftir leik og spurði hann hvað hafi skapað sigurinn hjá hans liði í kvöld.

„Góð vörn og það að við vorum tilbúnir að hlaupa til baka var lykillinn. Síðan þéttum við vörnina í seinni hálfleik og vönduðum okkur meira í sókninni. Þeir eru þekktir fyrir að keyra í bakið á liðum og mér fannst við hafa náð að lágmarka það.“

Melsungen byrjaði leikinn mög vel og komst sex mörkum yfir í stöðunni 7:1 en þá byrjuðu Valsmenn að saxa niður forskotið og náðu svo forskoti í seinni hálfleik áður en Melsungen náði flottum kafla síðustu fimm mínúturnar sem útskýrir fimm marka mun á liðunum í lokin.

„Við gerðum mikið af tæknifeilum í sókninni í fyrri hálfleik og aðeins í seinni. Þeir fundu einhverja veikleika á okkur sem gerði okkur erfitt fyrir og þetta var erfiður leikur en við erum með góða leikmenn og náðum að landa þessu á endanum. Það var pínu eins og þeir hafi orðið bensínlausir, ég veit það ekki,“ sagði Arnar Freyr spurður að því hver hafi verið vendipunkturinn í leiknum.

Nú ert þú að spila í fyrsta skiptið gegn íslensku félagsliði sem atvinnumaður með erlendu liði. Hvernig er tilfinningin að koma hingað á Hlíðarenda og spila gegn Val fyrir þýskt félagslið?

„Það er gaman og á sama tíma skrýtið. Það er skrýtið að heyra alla þessa íslensku í stúkunni. Það er allt öðruvísi en þegar maður spilar úti. Síðan bara hrós á plötusnúðinn í höllinni. Þetta er ekkert eðlilega góður plötusnúður hérna. Umgjörðin hér er frábær og stemmningin á Hlíðarenda var frábær kvöld."

Nú er Melsungen með fullt hús stiga í riðlinum. Er stefnan sett á að fara alla leið í Evrópudeildinni?

„Já klárlega. Við ætlum að byrja á því að vinna þennan riðil og svo sjáum við hvaða lið við fáum ef við vinnum riðilinn. En já stefnan er sett á að vinna þetta allt,“ sagði Arnar Freyr í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka