Var skrítin tilfinning

Elvar Örn Jónsson neglir að marki Vals í treyju Melsungen …
Elvar Örn Jónsson neglir að marki Vals í treyju Melsungen í leik liðanna í Kassel í Þýskalandi fyrir viku. Hann mætir Val aftur í kvöld. Ljósmynd/Melsungen

Selfyssingurinn Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk þegar þýska liðið Melsungen vann sannfærandi heimasigur á Val, 36:21, í Evrópudeildinni í handbolta fyrir viku. Þau mætast síðan aftur á heimavelli Vals á Hlíðarenda klukkan 19.45 í kvöld.

Arnar Freyr Arnarsson spilar einnig með Melsungen, sem er á toppi F-riðils með sex stig, fullt hús stiga, eftir þrjá leiki. Valur er á botninum með eitt stig.

„Það var skrítin tilfinning að mæta íslensku liði með útlensku félagsliði, ég viðurkenni það. Það er samt alltaf skemmtilegt að hitta íslenska leikmenn,“ sagði Elvar í samtali við Morgunblaðið.

„Þegar maður var kominn í leikinn var þetta eins og hver annar leikur. Þá hugsaði maður ekkert um að maður væri að mæta íslensku liði,“ bætti hann við.

Ísak Gústafsson leikmaður Vals var að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki með Selfossi er liðið varð Íslandsmeistari árið 2019. Elvar var þá einn allra besti leikmaður Íslandsmótsins og átti stóran þátt í fyrsta og eina meistaratitli Selfyssinga til þessa.

„Ísak æfði með okkur þegar við vorum meistarar, en hann spilaði lítið. Við þekkjumst nokkuð vel.“

Gott að fá aukadaga á Íslandi

Elvar er hæstánægður með að vera með Val í riðli í keppninni, þar sem hann fær að heimsækja vini og fjölskyldu hér á landi. Venjulega er lítill frítími til þess þegar menn spila í gríðarlega sterkri þýskri deild og Evrópukeppni með.

„Ég er mjög spenntur fyrir því. Það verður gott að fá aukadaga heima á Íslandi. Ég átti ekki von á því þegar tímabilið byrjaði, en það var mjög gaman að lenda í sama riðli og Valsmenn. Ég fagna því að fá að koma til Íslands,“ sagði hann.

Stærri sigur en ég átti von á

Melsungen var með yfirburði gegn Val í fyrri leiknum og fimmtán marka sigur gefur rétta mynd af leiknum, þótt hann hafi verið stærri en Elvar átti von á.

„Þetta varð stærri sigur en ég átti von á. Við lögðum þennan leik upp eins og alla aðra leiki. Við mættum tilbúnir og kláruðum þetta af fagmennsku,“ útskýrði hann.

Viðtalið við Elvar má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka