Tveir sigrar í jafnmörgum vináttulandsleikjum hjá íslenska kvennalandsliðinu í handknattleik gegn því pólska veita von um að Ísland sé að færast nær sterkari þjóðum.
Ekki er lengra síðan en í september síðastliðnum að Pólland vann öruggan sigur, 26:15, á æfingamóti í Tékklandi og því getur vissulega enn brugðið til beggja vona. Enginn vafi leikur hins vegar á því að liðið hefur bætt sig á undanförnum árum.
Arnar Pétursson landsliðsþjálfari hefur í gegnum árin bent á að til þess að nálgast betri lið þyrfti Ísland til að mynda að bæta líkamlegan styrk, snerpu og síðast en ekki síst andlega þáttinn.
Það er ekki annað að sjá en að liðið hafi bætt sig á öllum þessum sviðum. Þegar sá grunnur hefur verið lagður myndast grundvöllur til að bæta spilamennskuna.
Það sem bakvörður sá í leikjunum gegn Póllandi er lið sem er orðið mun beinskeyttara í sóknarleik sínum en fyrir nokkrum árum, sömuleiðis töluvert grimmara og samhentara í varnarleiknum og farið að taka betri ákvarðanir, sem hefur í för með sér færri tæknifeila og tapaða bolta.
Bakvörð Gunnars má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.