Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar var allt annað en ánægður með frammistöðu liðs síns eftir 6 marka tap gegn Íslandsmeisturum FH í dag. Spurður út í leikinn sagði Gunnar þetta.
„Eigum við ekki bara að einfalda þetta og segja að bara allt klikkaði hjá okkur í dag. Eftir 5-8 mínútur þá sér maður bara að við erum ekki á staðnum og það er ansi óþægileg tilfinning eftir að hafa verið alla vikuna að undirbúa þennan leik. Það stóð ekki steinn yfir steini hjá okkur og FH voru bara miklu betri á öllum sviðum leiksins. Þetta fer bara hjá okkur á fyrstu 15 mínútunum.“
Afturelding fær á sig 20 mörk í fyrri hálfleik og það er enginn varinn bolti ásamt því að 6 af fyrstu 9 mörkum FH koma af línunni. Hvað var að gerast í vörn Aftureldingar?
„Þetta helst í hendur. Auðvitað eiga markverðirnir að verja meira þó svo að vörnin sé engin og þeir vita það sjálfir. En markverðirnir fá enga hjálp frá vörninni sem var engin. Þessir tveir markverðir eru frábærir og búnir að vera það í vetur. Þeim var vorkunn í dag að vera með þessa vörn fyrir framan sig. Þetta hefur haldist í hendur þeir hafa varið mjög vel þegar vörnin hefur staðið vel.
Við bara vorum ekki á staðnum í dag og það vantaði bara baráttu og vilja í dag. Við bara náðum ekki að koma okkur inn í leikinn og þegar þetta endar svona þá þurfum við þjálfararnir að skoða undirbúninginn og allt í kringum hann varðandi þennan leik.“
Þegar Gunnar var inntur eftir nánari skýringum á slökum leik Aftureldingar sagði hann þetta.
„Það vantaði bara vörn hjá okkur í dag. Andlega vorum við fjarverandi og þú getur ekki unnið handboltaleik með þrjá varða bolta. Þeir fengu enga aðstoð og komust því aldrei í takt við leikinn og ég ítreka að ég er ekki að henda markvörðunum undir vagninn. Það vantaði bara okkar einkenni í dag sem er þessi neisti, geðveiki og barátta.“
Afturelding gerði alvöru áhlaup á lið FH í seinni hálfleik og minnkaði muninn niður í 5 mörk en þá tók FH leikhlé og eftir það kláruðu Hafnfirðingar leikinn á örfáum mínútum.
„Við töluðum um það í hálfleik að reyna fá moment. Vorum 7 mörkum undir sem er alveg yfirstíganlegt og okkur tókst að gera áhlaup en þá fóru þeir aftur í gang og þetta bara dugði ekki.
Það er bara svo erfitt að breyta hugarfari leikmanna í miðjum leik. Þú getur breytt taktík og allskonar þannig en að breyta hugarfari þegar liðið hefur mætt illa til leiks er bara mjög erfitt.“
Næsti leikur er Fjölnir eftir landsleikjahlé. Það hlýtur að vera leikur sem þarf að vinna ekki satt?
„Við þurfum að svara fyrir þessa skitu. Ég er búinn að vera mjög ánægður með strákana í vetur og höfum ekki átt marga slaka leiki. Það var ekki í kortunum að vera með þessa frammistöðu í dag. Miðað við síðasta mánuð þá kom þetta mér í opna skjöldu en stigasöfnunin er góð hingað til og við erum á toppnum með FH en við þurfum bara að læra af þessu og mæta sprækir og svara fyrir þetta á móti Fjölni. Þetta er enginn heimsendir,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is.