Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, hefur gert þrjár breytingar á landsliðshópnum fyrir leikinn við Bosníu í undankeppni EM í Laugardalshöll á miðvikudagskvöld klukkan 19.30.
Aron Pálmarsson, Elliði Snær Viðarsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson eru allir að glíma við meiðsli og verða ekki með.
Í þeirra stað koma Arnar Freyr Arnarsson, Benedikt Gunnar Óskarsson og Birgir Már Birgisson inn í hópinn.
Leikurinn er sá fyrsti í 3. riðli undankeppninnar. Grikkland og Georgía eru einnig í riðlinum og eru tvö efstu liðin örugg með sæti á lokamótinu í Danmörku, Noregi og Svíþjóð í ársbyrjun 2026.