„Við erum á góðri leið,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson, landsliðsmaður í handbolta og leikmaður Sporting í Lissabon, í samtali við mbl.is.
Orri Freyr er í landsliðshópnum sem mætir Bosníu í Laugardalshöllinni annað kvöld og Georgíu ytra næstkomandi sunnudag.
Hann hefur verið að spila frábærlega með Sporting en liðið er með fullt hús stiga í Portúgal eftir ellefu umferðir og er í góðri stöðu í Meistaradeild Evrópu, sterkustu keppni álfunnar.
„Heilt yfir hef ég verið nokkuð sáttur við tímabilið. Vonandi höldum við þessu striki áfram, þá gerast góðir hlutir,“ sagði Orri Hrafn.
„Mér líður mjög vel þarna. Við erum að spila mikið og gerum það vel. Við töpuðum tveimur leikjum í Meistaradeildinni sem ég hef viljað önnur úrslit úr, en annars er ég sáttur.“
Sporting er Portúgalsmeistari en Porto, sem Þorsteinn Leó Gunnarsson spilar fyrir, og Benfica, sem Stiven Tobar Valencia spilar fyrir, eru einnig mjög sterk.
„Skemmtilegustu leikirnir í Portúgal eru gegn Porto og sömuleiðis Benfica. Það var hrikalega gaman að vinna Porto um síðustu helgi.
Pökkuð höll, mjög mikilvægur leikir upp á stigin og toppsætið. Ég er vel sáttur við að hafa unnið Þorstein og félaga,“ bætti Orri Freyr við.
Sporting-liðið er með þeim betri í Evrópu daginn í dag. Orri Freyr segir margt koma að því.
„Réttar ákvarðanir. Forráðamenn Sporting gerðu ákveðna fjárfestingu í að fá unga leikmenn á sínum tíma. Þeir hafa vaxið hrikalega vel og verið vel haldið utan um þennan hóp sem er núna.
Okkur gekk mjög vel í fyrra, bæði í Evrópu og svo vinnum við allt heima fyrir. Við erum að byggja ofan á það.
Við erum núna með svipaðan hóp, ekki margar breytingar. Við fengum inn menn sem styrktu hópinn, þótt að sumir sem fóru hafi verið mjög góðir líka.“
Hvert er svo markmið liðsins?
„Að vinna allt sem við getum í Portúgal og svo er þetta bara einn leikur í einu. Við förum inn í alla leiki til að vinna og svo er útkoman bara eins og hún er. Við viljum halda þessu striki sem lengst,“ sagði Orri Freyr.
Nánar er rætt við Orra Frey, sem og Þorstein Leó Gunnarsson, í Morgunblaði morgundagsins.