Íslenska karlalandsliðið í handknattleik fær Bosníu í heimsókn í Laugardalshöllina í kvöld. Leikurinn er sá fyrsti hjá Íslandi í undankeppni fyrir Evrópumótið 2026 sem mun fara fram í janúar 2026 í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Ásamt Íslandi og Bosníu eru Grikkland og Georgía í riðlinum en Ísland heimsækir síðarnefnda liðið næstkomandi sunnudag.
Fyrirfram er Ísland langsterkasta lið riðilsins en hin þrjú hafa öll verið á uppleið. Þau tóku öll þátt á Evrópumótinu í Þýskalandi í janúar á þessu ári og mættust Bosnía og Georgía þar sem Georgíumenn höfðu betur, 22:19.
Leikirnir fram undan eru mikilvægir fyrir íslenska landsliðið til að koma sér í góða stöðu í riðlinum en einnig sem undirbúningur fyrir heimsmeistaramótið í Danmörku, Noregi og Króatíu. Þar mun íslenska landsliðið leika í G-riðli í Zagreb ásamt Slóveníu, Kúbu og Grænhöfðaeyjum.
Snorri Steinn Guðjónsson sagði um landsliðsvalið að hann væri að prófa nýja leikmenn með heimsmeistaramótið í huga. Þá kom til að mynda Sveinn Jóhannsson leikmaður Kolstad inn fyrir margreynda landsliðsmanninn Arnar Freyr Arnarsson leikmann Melsungen.
Arnar Freyr verður þó með vegna meiðsla, líkt og Benedikt Gunnar Óskarsson og Birgir Már Birgisson en lykilmennirnir Aron Pálmarsson landsliðsfyrirliði, Elliði Snær Viðarsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson þurftu að draga sig úr hópnum vegna meiðsla.
Leikirnir eru því einstaklega mikilvægir, bæði fyrir liðið að sækja tvo sigra og undirbúa sig vel fyrir HM en einnig fyrir leikmenn til að sanna hvað í þeim býr.
Tveir þeirra sem vilja nýta tækifærið eru Þorsteinn Leó Gunnarsson leikmaður Porto og Orri Freyr Þorkelsson leikmaður Sporting. Báðir tveir leika í Portúgal en voru ekki með á síðasta stórmóti. Þeir eru þó báðir ungir og hafa vaxið mikið undanfarið ár.
Markmið beggja er að vera í landsliðshópnum í janúar en Morgunblaðið tók púlsinn á þeim fyrir landsliðsæfingu í Víkinni í fyrradag.
„Að sjálfsögðu vonast maður til þess að vera í landsliðshópnum í janúar. Ég ætla mér að halda áfram að spila vel eins og ég hef verið að gera. Ég fæ að koma inn í hópinn núna og maður vonast eftir því að fá að spila nóg. Við sjáum til hvernig þetta þróast,“ sagði Orri Freyr.
Þorsteinn Leó tók í sama streng: „Vonandi fæ ég að spila og sýna fólki hvað ég get. Ég stefni að því að vera hér í janúar. Ég þarf að sanna mig núna og þá verð ég alltaf valinn,“ sagði Mosfellingurinn.
Viðtölin við Orra Frey og Þorstein Leó má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.