„Þetta var góð frammistaða í seinni hálfleik en mér fannst við samt góðir varnarlega allan tímann,“ sagði Ómar Ingi Magnússon, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir sigur íslenska liðsins gegn Bosníu í C-riðli undankeppni EM 2026 í Laugardalshöll í kvöld.
Leiknum lauk með sex marka sigri Íslands, 32:26, en staðan var jöfn í hálfleik, 12:12.
„Við fengum bara 12 mörk á okkur í fyrri hálfleik en við vorum frekar taktlausir sóknarlega. Þetta var öllu skárra í seinni hálfleik. Ég veit ekki af hverju við vorum svona taktlausir í fyrri hálfleik, kannski vorum við of lítið spenntir, eða of spenntir.
Við þurfum að finna eitthvað jafnvægi þar en um leið og við fundum taktinn var þetta ágætt hjá okkur,“ sagði Ómar Ingi.
Næsti leikur Íslands er gegn Georgíu á útivelli á sunnudaginn kemur.
„Það var mikilvægt að byrja þessa undankeppni á sigri gegn góðu liði því við vissum það fyrir fram að þetta yrði alls ekki auðveldur leikur. Við erum með góða breidd og Þorsteinn Leó átti frábæra innkomu. Hann gerði það sem hann átti að gera, sem er að skjóta á markið. Við getum leyft okkur að skipta og það er mjög góður kostur.“
Landsliðsfyrirliðinn var sáttur með stuðninginn í kvöld.
„Stúkan var frábær og hún hjálpaði okkur mikið í dag,“ bætti Ómar Ingi við í samtali við mbl.is.