Grikkland hafði betur gegn Georgíu, 27:26, í æsispennandi leik í undankeppni EM karla í handbolta í dag. Leikurinn var liður í 3. riðli, þar sem Ísland og Bosnía eru einnig og mætast í kvöld.
Giorgi Tskhovrebadze jafnaði fyrir Georgíu í 26:26 þegar 23 sekúndur voru til leiksloka. Nikolas Passias átti hins vegar lokaorðið því hann skoraði sigurmark Grikklands fjórum sekúndum fyrir leikslok.
Achilleas Toskas og Nikolas Liapis voru markahæstir hjá Grikklandi með sjö mörk hvor. Áðurnefndur Tskhovrebadze skoraði ellefu fyrir Georgíu.
Ísland mætir Georgíu á útivelli 10. nóvember næstkomandi.