Lærisveinar Dags Sigurðssonar í króatíska landsliðinu unnu öruggan sjö marka sigur, 30:23, gegn því belgíska á heimavelli í undankeppni EM karla í handbolta í kvöld.
Jafnræði var með liðunum framan af og var staðan 11:11 þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður. Þá tóku Króatar við sér og var staðan 16:12 í hálfleik. Í stöðunni 24:19 skoruðu Króatar sex mörk í röð og innsigluðu stórsigur.
Mario Sostaric skoraði tíu mörk fyrir Króatíu og Ivan Martinovic gerði fjögur.
Þýskaland, silfurliðið frá því á Ólympíuleikunum í París, vann níu marka heimasigur á Sviss, 35:26. Alfreð Gíslason þjálfar þýska liðið. Staðan í hálfleik var 21:13 og var eftirleikurinn auðveldur fyrir þýska liðið í seinni hálfleik.
Lukas Zerbe skoraði sjö mörk fyrir Þýskaland og Sebastian Heymann gerði fimm.