Tveir leikmenn franska karlalandsliðsins í handknattleik, ríkjandi Evrópumeistara, meiddust alvarlega í leik Frakklands gegn Svíþjóð í Evrópubikarnum á miðvikudag.
Bæði Elohim Prandi og Kylian Villeminot þurftu að fara meiddir af velli í leiknum, sem lauk með 37:31-sigri Frakka.
Prandi fór úr vinstri axlarlið á meðan Villeminot sleit hásin. Mega þeir af þeim sökum eiga von á langri fjarveru og missa að öllum líkindum af HM 2025 í Króatíu, Danmörku og Noregi.
Prandi má vænta þess að vera frá keppni í tvo til þrjá mánuði og á því örlítinn möguleika á að taka þátt en Villeminot verður frá í fjóra til sex mánuði.
HM 2025 fer fram í byrjun árs, hefst 14. janúar og lýkur 2. febrúar.