Ógeðslega gaman að spila þennan leik

Frá leiknum á Hlíðarenda í kvöld.
Frá leiknum á Hlíðarenda í kvöld. Ólafur Árdal

„Þetta var mjög skemmtilegt,“ sagði Berta Rut Harðardóttir, leikmaður sænska liðsins Kristianstad, í samtali við mbl.is eftir að liðið tapaði fyrir Val, 27:24, í fyrir leik liðanna í Evrópubikarnum í handbolta á Hlíðarenda í dag.

„Það er alltaf gaman að spila á Íslandi og það eru að verða þrjú ár síðan ég spilaði hérna seinast. Það var ógeðslega gaman að spila þennan leik og gaman að sjá hvað voru margir í stúkunni.

Við Jóhanna vorum heppnar að fá svona mikið af okkar eigin fólki í stúkuna. Það var geggjuð stemning og gaman að sjá hvað Valsararnir gerðu þetta vel í dag. Það er ekki oft sem maður fær að spila fyrir framan sitt eigið fólk í dag,“ sagði Berta, sem naut þess að spila á móti íslenskum leikmönnum.

Berta Rut Harðardóttir í leik með Haukum gegn Val.
Berta Rut Harðardóttir í leik með Haukum gegn Val. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég er uppalin í Haukum og það hefur alltaf verið rígur við Val þar. Þetta var mjög gaman á móti leikmönnum sem maður þekkir vel. Við Jóhanna gerðum okkar besta til að hjálpa til í undirbúningnum.

Þetta var hörkuleikur og Valsliðið er ótrúlega flott, með landsliðsmenn í öllum stöðum. Við verðum að eiga góðan leik til að vinna þær á heimavelli úti,“ sagði hún og hélt áfram:

„Þetta spilaðist eins og ég hélt. Ég átti von á jöfnum leik allan tímann. Við ætluðum að hlaupa á þær og mér fannst við gera það. Það var ótrúlega gaman að spila við þetta lið og sjá hvar við stöndum við hliðina á þeim.“

100% enn þá opið

Seinni leikurinn fer fram í Svíþjóð eftir viku og er einvígið enn galopið.

„Þetta er 100% enn þá opið. Við spiluðum alls ekki okkar besta leik. Við töpuðum boltanum allt og oft og skutum Hafdísi í gang. Hún er það góður markvörður að við þurfum ekki að gera hana enn betri.

Við eigum bullandi séns heima og við ætlum að vinna þann leik með fjórum mörkum,“ sagði Berta. Haukakonan vill alls ekki tapa einvígi fyrir Val.

„Því miður höfum við í Haukum verið litla systirin í einvíginu við Val undanfarin ár og það er aldrei gaman að tapa fyrir Val. Það hefur samt verið gaman að sjá hvað Haukaliðið er orðið sterkt,“ sagði Berta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert