Landsliðskonan Jóhanna Margrét Sigurðardóttir og samherjar hennar í sænska liðinu Kristianstad máttu þola tap, 27:24, gegn Val í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikarsins í handbolta í dag.
„Það var skrítið að koma heim að spila, en á sama tíma mjög skemmtilegt. Það var mjög góð umgjörð hjá Val í kringum leikinn. Það var mjög gaman að hafa alla fjölskylduna upp í stúku og algjörlega ómetanlegt,“ sagði Jóhanna við mbl.is eftir leik.
Úrslitin komu Jóhönnu ekki endilega á óvart, gegn mjög sterku Valsliði.
„Það kemur mér kannski ekki á óvart. Ég átti von á hörkuleik. Þær eru með mjög sterkt lið. Því miður unnu þær í dag.“
„Vörnin okkar var ekki nógu góð í seinni hálfleik og við hefðum getað nýtt færin okkar miklu betur. Tæknifeilarnir voru líka of margir. Sóknarleikurinn og dauðafærin fóru með okkur,“ sagði hún.
Kristianstad fær því það verkefni að vinna upp þriggja marka forskot á sínum heimavelli eftir viku.
„Við komum brjálaðar inn í seinni leikinn á móti góðu Valsliði. Þær eru með háklassaleikmenn í öllum stöðum og ég held þær væru sterkar í sænsku deildinni. Þær sýndu í dag hvað þær eru góðar,“ sagði Jóhanna.