„Það er styrkleiki en líka hausverkur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir 32:26-sigur liðsins gegn Bosníu í C-riðli undankeppni EM 2026 í Laugardalshöll á miðvikudaginn.
Íslenska liðið var í vandræðum með bosníska liðið lengi vel og var staðan jöfn í hálfleik, 12:12.
Það var ekki fyrr en í síðari hálfleik sem íslenska liðinu tókst að fjarlægast það bosníska en leikmenn á borð við Gísla Þorgeir Kristjánsson og Hauk Þrastarson komu ekkert við sögu í síðari hálfleik, leikmenn sem leika báðir í Meistaradeildinni með félagsliðum sínum.
„Haukur var ónotaður í dag og Gísli spilaði bara fyrri hálfleikinn,“ sagði Snorri Steinn í samtali við mbl.is.
„Það er ekki auðvelt að hafa svona leikmenn á bekknum en svona er bransinn. Við erum í þessu til þess að ná árangri og það er liðið sem vinnur. Menn gleðjast yfir því og það kemur að því að ég þarf á öllum leikmönnunum að halda.
Þetta eru heimsklassaleikmenn og alvöru egó, en menn þurfa líka að virða sitt hlutverk innan liðsins. Það er hluti af því að vera í landsliði og ætla að ná árangri,“ bætti Snorri Steinn við í samtali við mbl.is.