Stjarnan vann hádramatískan sigur á ÍR, 29:28, þegar liðin áttust við í 9. umferð úrvalsdeildar kvenna í handknattleik í Breiðholti í kvöld.
Stjarnan er í sjötta sæti með sex stig og ÍR er sæti neðar með fjögur stig.
Eftir æsispennandi leik þar sem liðin skiptust á að ná naumri forystu var ÍR með eins marks forystu, 27:28, þegar rúmlega þrjár mínútur lifðu leiks.
Embla Steindórsdóttir jafnaði metin í 28:28 þegar tvær og hálf mínúta voru eftir. Enn var nægur tími fyrir bæði lið til þess að knýja fram sigurmark.
Tvær sóknir ÍR fóru hins vegar í súginn og ein hjá Stjörnunni, sem fékk eitt lokatækifæri. Það nýtti Embla þegar hún skoraði sigurmarkið átta sekúndum fyrir leikslok.
Embla var jafn markahæst í leiknum með níu mörk fyrir Stjörnuna. Anna Karen Hansdóttir og Guðmunda Auður Guðjónsdóttir bættu við fimm mörkum hvor.
Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir varði 14 skot í marki Stjörnunnar og var með 36 prósent markvörslu.
Katrín Tinna Jensdóttir skoraði einnig níu mörk fyrir ÍR og Sra Dögg Hjaltadóttir bætti við sex mörkum.
Hildur Öder Einarsdóttir varði 12 skot í marki ÍR og var með 37,5 prósent markvörslu.