Framarar unnu frábæran sigur á Eyjamönnum er liðin mættust í fyrsta leik 10. umferðar úrvalsdeildar karla í handknattleik í kvöld. Leikið var í Vestmannaeyjum en gestirnir voru yfir 17:16 í hálfleik og lokatölur 36:29. Rúnar Kárason var bestur gestanna en hann skoraði tíu mörk.
Eyjamenn léku við hvurn sinn fingur í upphafi leiks og náðu á fyrstu sex mínútunum að skora sjö mörk og standa vörnina ágætlega á meðan þar sem einungis eitt skot gestanna hafði ratað í markið. Framarar gerðu virkilega vel á þeim tíma sem eftir var í fyrri hálfleiknum en þeir leiddu í hálfleik 16:17. Mikil ró var í liði Fram á fyrstu mínútunum þrátt fyrir að illa gengi, sem skilaði sér.
Rúnar Kárason lék manna best í fyrri hálfleiknum og skoraði sex mörk, flest voru keimlík að utan hægra megin þar sem Rúnar heldur sig oftast. Petar Jokanovic réði ekkert við skot Rúnars og fór svo að Pavel Miskevich kom inn í markið og náði að verja þrjú skot á sínum nokkru mínútum en það er jafn mikið og Petar varði á fyrstu 25 mínútunum. Arnór Máni Daðason lék vel í marki Framara í fyrri hálfleik og varði átta skot, þar af vítakast. Fimm af 16 mörkum Eyjamanna voru úr hraðaupphlaupum en tíu af 17 mörkum Framara komu að utan.
Framarar héldu uppteknum hætti áfram í byrjun seinni hálfleiks og léku hann fagmannlega og voru sterkari en ÍBV á flestum ef ekki öllum sviðum. Virkilega góður sóknarleikur þeirra var Eyjamönnum erfiður og þeir náðu í raun aldrei að finna lausn á því.