Íslendingalið Magdeburg er úr leik í þýsku bikarkeppninni í handknattleik karla eftir naumt tap fyrir Kiel, 29:28, í 16-liða úrslitum í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk fyrir Þýskalands- og bikarmeistara Magdeburg og gaf þrjár stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þá tvö mörk og gaf eina stoðsendingu.
Magdeburg mun því ekki verja bikarmeistaratitil sinn á tímabilinu.
Stórleikur Andra Más Rúnarsson dugði ekki til fyrir Leipzig þar sem liðið tapaði fyrir Eisenach á útivelli, 30:24.
Andri Már skoraði sjö mörk og gaf eina stoðsendingu. Var hann markahæstur allra í leiknum. Viggó Kristjánsson bætti við fjórum mörkum fyrir Leipzig, sem Rúnar Sigtryggsson þjálfar.
Íslendingalið Melsungen vann góðan útisigur á Essen, 32:27, þar sem Arnar Freyr Arnarsson skoraði fjögur mörk og Elvar Örn Jónsson skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu.
Daníel Þór Ingason var ekki í leikmannahópi Balingen sem vann öruggan útisigur á Empor Rostock, 36:28.
Hannover-Burgdorf mátti þá sætta sig við tap á heimavelli, 26:33, fyrir Flensburg. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.