Einar Jónsson, þjálfari Fram, var augljóslega ánægður með sigur sinna manna í Vestmannaeyjum í kvöld er 10. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik fór af stað.
ÍBV var með fullt hús stiga á heimavelli eftir fyrstu fjóra leikina en voru kafsigldir af Frömurum, þrátt fyrir frábæra byrjun heimamanna. Lokatölur 36:29 eftir að staðan var 17:16 í hálfleik.
„Mér fannst vörn og markvarsla virkilega góð, þrátt fyrir að við höfum fengið á okkur 29 mörk. Við vorum reknir frekar mikið útaf, réttilega í flestum tilfellum, en þeir nýttu sér það ágætlega. Sóknarleikurinn var framúrskarandi fyrir utan fyrstu tíu mínúturnar, ég tók ekki einu sinni leikhlé og því fórum við bara í okkar leik eftir tíu mínútur,“ sagði Einar sem var í skýjunum með sigurinn, það vakti athygli blaðamanns hve rólegir Framarar voru þrátt fyrir slæma byrjun.
„Við erum komnir 7:1 undir en vinnum þetta svo með sjö, það er helvíti vel gert, í 50 mínútur var flest allt mjög vel gert hjá okkur. Ég var að fara að taka leikhlé en svo skorum við tvö eða þrjú í röð, við vorum líka einum og tveimur færri á þessum kafla og ég vildi hanga á því út. Það vissu allir hvað við ætluðum að gera en það hefði kannski verið betra að taka leikhlé og lenda ekki í þessari stöðu, við gerðum smá breytingar en þetta small. Við hættum að kasta boltanum frá okkur og skutum á markið, sem virkar betur en að gefa boltann beint á andstæðingana.“
Fannst Einari hans menn vera með leikinn mest allan tímann?
„Nei, ÍBV er frábært lið og þeir eru lið áhlaupa, maður var aldrei í rónni. Þeir geta verið lélegir í smástund og skora svo 7-8 mörk í röð og allt húsið með, maður var meðvitaður um það. Mér leið þó mjög vel í leiknum og mér líður mjög vel með þetta lið. Við vitum alveg hvað við ætlum okkur í hverjum leik og markmiðin sem og öll okkar gildi eru skýr. Stundum ertu lélegur og stundum ertu góður, við vorum góðir í dag og gerðum þetta vel. Mér líður alltaf vel hérna í Eyjum, sama hvort maður tapar eða vinnur, það er bara svoleiðis.“
Rúnar Kárason og Reynir Þór Stefánsson stýrðu sóknarleik gestanna vel og skoruðu þeir sautján mörk saman úr opnum leik ásamt því að búa til 11 færi fyrir liðsfélaga sína.
„Rúnar var framúrskarandi hérna í dag, Reynir var allt í lagi en við höfum oft séð hann betri, hans geta er miklu meiri en hann sýndi í dag. Hann var þó alveg góður og ég ætla ekki að taka það af honum. Á heildina litið vorum við að fá framlag frá öllum þannig séð, það lúkkaði allavega þannig eins og við værum að fá mörk úr öllum stöðum. Línumennirnir voru geggjaðir í dag og það var ánægjulegt að sjá, Arnór var frábær í markinu og ég gæti hrósað þeim öllum.“
Eyjamenn gerðu mikið af hraðaupphlaupsmörkum í fyrri hálfleik en Framarar hófu seinni hálfleikinn á að skora nokkur slík.
„Mér fannst vörnin góð allan leikinn, við þurftum bara að hætta að gera þessa tæknifeila, við náðum síðan að refsa þeim örlítið meira í upphafi seinni hálfleiks, það var eitthvað sem við töluðum um að þegar vörnin stendur þurfum við að fá aðeins meira út úr því. Við byggðum upp forskotið með þeim atriðum.“
Hvernig líður Einari með byrjunina á tímabilinu, eftir fyrstu tíu leikina af 22?
„Ég vissi ekki alveg hverju ég átti von á, svarið er bara já og nei, við höfum átt góða leiki og lélega leiki, heilt yfir held ég að við séum búnir að spila frábærlega í vetur. Samkvæmt einhverju expected points ættum við að vera nokkuð örugglega efstir, ég held að það gefi ágætis mynd af spilamennskunni okkar. Þau eru nokkur atriðin sem við höfum verið að vinna í og þegar það smellur þá förum við að vera betri, vonandi náum við í fleiri af þessum expected points. Heilsa leikmanna er að verða betri eftir að við byrjuðum með laskað lið í upphafi móts, það var ánægjulegt að sjá Tryggva (Garðar Jónsson) fá mínútur á gólfinu í kvöld, hann er orðinn betri til heilsunnar. Það er margt til að gleðjast yfir og að sjálfsögðu er maður í skýjunum eftir sigur í Eyjum, það er ekki oft sem maður getur þakkað fyrir það.“