Íslendingalið Magdeburg er úr leik í þýsku bikarkeppninni í handknattleik karla eftir naumt tap fyrir Kiel, 29:28, í 16-liða úrslitum í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk fyrir Þýskalandsmeistara Magdeburg og gaf þrjár stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þá tvö mörk og gaf eina stoðsendingu.
Stórleikur Andra Más Rúnarsson dugði ekki til fyrir Leipzig þar sem liðið tapaði fyrir Eisenach á útivelli, 30:24.
Andri Már skoraði sjö mörk og gaf eina stoðsendingu. Var hann markahæstur allra í leiknum. Viggó Kristjánsson bætti við fjórum mörkum fyrir Leipzig, sem Rúnar Sigtryggsson þjálfar.
Íslendingalið Melsungen vann góðan útisigur á Essen, 32:27, þar sem Arnar Freyr Arnarsson skoraði fjögur mörk og Elvar Örn Jónsson skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu.
Daníel Þór Ingason var ekki í leikmannahópi Balingen sem vann öruggan útisigur á Empor Rostock, 36:28.
Hannover-Burgdorf mátti þá sætta sig við tap á heimavelli, 26:33, fyrir Flensburg. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.