Toppliðið áfram með fullt hús

Lovísa Thompson brýst í gegn í kvöld.
Lovísa Thompson brýst í gegn í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslands-, bikar- og deildarmeistarar Vals unnu enn einn sigurinn í úrvalsdeild kvenna þegar ÍBV kom í heimsókn á Hlíðarenda í 9. umferð deildarinnar í kvöld. Lokatölur urðu 29:21.

Valur er áfram með fullt hús stiga á toppnum, 18, á meðan ÍBV er í fimmta sæti með sex stig.

Valskonur voru með mikla yfirburði í fyrri hálfleik enda munurinn átta mörk, 16:8, að honum loknum.

Valur hóf síðari hálfleikinn á því að komast níu mörkum yfir, 17:9.

Í kjölfarið tóku gestirnir úr Vestmannaeyjum vel við sér og minnkuðu muninn niður í fjögur mörk, 20:16.

Nær komust gestirnir hins vegar ekki, Valur náði aftur vopnum sínum og vann að lokum átta marka sigur.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í leiknum með átta mörk fyrir Val. Sigríður Hauksdóttir bætti við fimm mörkum og Arna Karitas Eiríksdóttir skoraði fjögur.

Hafdís Renötudóttir varði 12 skot í marki Vals og var með 40 prósent markvörslu.

Hjá ÍBV var Birna Berg Haraldsdóttir markahæst með sjö mörk. Sunna Jónsdóttir skoraði fimm mörk.

Sunna Jónsdóttir sækir að marki Vals.
Sunna Jónsdóttir sækir að marki Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert