Íslands-, bikar- og deildarmeistarar Vals unnu enn einn sigurinn í úrvalsdeild kvenna þegar ÍBV kom í heimsókn á Hlíðarenda í 9. umferð deildarinnar í kvöld. Lokatölur urðu 29:21.
Valur er áfram með fullt hús stiga á toppnum, 18, á meðan ÍBV er í fimmta sæti með sex stig.
Valskonur voru með mikla yfirburði í fyrri hálfleik enda munurinn átta mörk, 16:8, að honum loknum.
Valur hóf síðari hálfleikinn á því að komast níu mörkum yfir, 17:9.
Í kjölfarið tóku gestirnir úr Vestmannaeyjum vel við sér og minnkuðu muninn niður í fjögur mörk, 20:16.
Nær komust gestirnir hins vegar ekki, Valur náði aftur vopnum sínum og vann að lokum átta marka sigur.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í leiknum með átta mörk fyrir Val. Sigríður Hauksdóttir bætti við fimm mörkum og Arna Karitas Eiríksdóttir skoraði fjögur.
Hafdís Renötudóttir varði 12 skot í marki Vals og var með 40 prósent markvörslu.
Hjá ÍBV var Birna Berg Haraldsdóttir markahæst með sjö mörk. Sunna Jónsdóttir skoraði fimm mörk.