Ætlumst til þess að allir skili sama vinnuframlagi

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH.
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH. mbl.is/Eyþór

Sigursteinn Arndal þjálfari FH var ánægður með 11 marka sigur gegn KA, 36:25, í Kaplakrika í kvöld. FH er því áfram á toppi deildarinnar en liðið mætir Gummersbach í Þýskalandi á þriðjudag.

Spurður út í leikinn í kvöld sagði Sigursteinn þetta.

„Í fyrsta lagi þá getur maður aldrei ætlast til þess að vera búinn að vinna leiki eftir 15 mínútur. Þetta er alls ekki þannig. VIð þurfum alltaf að vinna okkur inn réttinn til að fá eitthvað út úr öllum leikjum.

En ég var ánægður með leikinn í kvöld. Við vorum heilt yfir flottir í 60 mínútur og gerðum ekki mikið af mistökum. Varnarlega vorum við frábærir og þeir þurftu að hafa ofboðslega mikið fyrir sínu. Af því að við spiluðum þétta vörn allan tímann þá fóru þeir að taka sénsa sem bjuggu til mistök og okkur tókst að refsa fyrir það.“

En ef við ræðum seinni hálfleik þá hreinlega valtar FH yfir KA og þó að þú hafir skipt yngri og óreyndari leikmönnum inn á breytti það engu.

„Jú, það er rétt og það er það sem við viljum að FH standi fyrir. Að halda sig við leikplanið og reyna að gera fá mistök, spila vörn og það geta mínir leikmenn gert. Við erum í þannig prógrammi að við þurfum að rótera og við ætlumst til þess að allir skili sama vinnuframlagi.“

Ég ræddi við Ásbjörn áðan að nú væri sá tími liðinn þar sem FH ætti að vera búið að aðlaga sig að nýjum veruleika þar sem Aron Pálmarsson er ekki lengur í liðinu. Stórsigur gegn Aftureldingu sem er í toppbaráttunni ásamt FH og svo stórsigur á móti KA ásamt tveimur fínum leikjum gegn Savehof í Evrópudeildinni. Það er ekki að sjá að FH sakni eins besta handboltamanns í heimi þessa stundina eða hvað?

„Við bara þurftum að bregðast við brotthvarfi Arons og breyta nokkrum hlutum. En við erum að spila sama kerfi varnarlega, spilum aðeins öðruvísi sóknarlega og þurfum að vernda boltann extra vel. Mér finnst við vera að gera það ágætlega en eins og ég hef sagt þúsund sinnum í viðtölum að það finna allir fyrir því að missa leikmann eins og Aron en við höfum reynt að finna okkar leið og mér finnst það bara hafa tekist ágætlega hingað til,“ sagði Sigursteinn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert