Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA var eðlilega ekki sáttur við 11 marka tap gegn FH, 36:25, í Kaplakrika í kvöld.
Það má segja að fyrri og seinni hálfleikur hjá KA hafi verið eins og svart og hvítt því liðið brotlenti í seinni hálfleik eftir að hafa staðið í FH-ingum í fyrri hálfleik. Þegar mbl.is náði tali af Halldóri og spurði hann út í leikinn sagði hann þetta.
„Mér fannst við góðir í fyrri hálfleik ef frá er talinn hrikalega slæmur endakafli í fyrri hálfleik þar sem þeir skora tvö mörk á 10 sekúndum.
Síðan byrjar FH með boltann í seinni hálfleik og skorar. Þá er munurinn allt í einu farinn úr því að við gátum minnkað muninn niður í tvö í lok fyrri hálfleiks yfir í það að við erum sex mörkum undir eftir fyrstu sókn í seinni hálfleik. Það er ansi þungt.
Mér finnst við spila ágætlega í fyrri hálfleik. Við lendum í smá ströggli sóknarlega en náum alltaf að leysa úr því. Varnarlega vorum við flottir í fyrri hálfleik.
Síðan þegar við erum lentir 6 mörkum undir í seinni hálfleik þá prófum við 7 á 6 sem við komum hræðilega út úr og þá bara förum við að krúsa í gegnum þetta og mér fannst við aldrei eiga möguleika eftir þetta.“
KA menn voru bara alveg fínir í fyrri hálfleik en síðan er eins og það eigi sér stað bara algjört gjaldþrot í seinni hálfleik. Kanntu skýringar á þessu?
„Já, við setjum okkur í þessar stöður svolítið þar sem við gerum 4-5 mistök í röð og köstum frá okkur leikjunum. Þetta er ekki svona á heimavelli aftur á móti. Þar erum við að spila bara mjög vel og taka okkar stig. En við erum búnir að lenda í þessu alltof oft á útivelli þar sem við sýnum að við getum þetta en síðan brotnum við og missum trúna á verkefninu.“
Hvernig leysir þjálfari KA úr þessu?
„Þetta er tvíþætt. Í fyrsta lagi þurfum við að hætta að kasta frá okkur leikjunum með svona mörgum mistökum í röð. Hitt er andlegi þátturinn. 6 mörk undir er enn þá leikur þegar það eru 30 mínútur eftir. Það er nóg eftir til að vinna sig inn í leikinn aftur.“
Hvað þarf KA að gera til að ná góðum 60 mínútna leik?
„Við þurfum bara fleiri góðar æfingar. Við þurfum að halda áfram og fjölga þeim. Í byrjun tímabils vorum við að eiga bara 15 mínútur í leik, núna eru þetta 30. Við þurfum líka að vera klókari í að skrúfa fyrir mistökin þegar þau byrja að gerast,“ sagði Halldór Stefán í samtali við mbl.is.