Stórsigur Íslandsmeistaranna gegn KA

Leonharð Þorgeir Harðarson skýtur að marki KA-manna.
Leonharð Þorgeir Harðarson skýtur að marki KA-manna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslands- og deildarmeistarar FH tóku á móti KA frá Akureyri í 10. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik karla í Kaplakrika í kvöld en lauk leiknum með ellefu marka sigri FH, 36:25.

Var þetta leikur í 10. umferð Íslandsmótsins. Eftir leikinn er FH áfram á toppnum með 15 stig en KA-menn eru með 5 stig í 10. sæti deildarinnar.

KA-menn byrjuðu leikinn í kvöld vel, skoruðu fyrsta markið og voru yfir fyrstu 10 mínútur leiksins. Mest náðu KA-menn tveggja marka forskoti í stöðunni 3:1 en leikmenn FH jöfnuðu í stöðunni 3:3 og komust yfir í stöðunni 4:3.

Eftir þetta komust FH-ingar yfir og juku muninn hægt og þétt út hálfleikinn með nokkrum undantekningum þó.

KA-menn voru aldrei langt undan en þeir gátu minnkað muninn niður í tvö mörk í lok fyrri hálfleiks. Í staðinn fór FH í sókn og jók muninn í 4 mörk með fallegu gegnumbroti frá fógetanum Ásbirni Friðrikssyni. Enn voru nokkrar sekúndur eftir af hálfleiknum og ætluðu KA-menn að reyna minnka muninn. Það tókst ekki því Birgir Már Birgisson stal boltanum af KA mönnum og skoraði rétt áður en hálfleiksflautan gall. 

Staðan í hálfleik 17:12 fyrir FH.
Markahæstir í liði FH í fyrri hálfleik voru þeir Ásbjörn Friðriksson, Jóhannes Berg Andrason og Birgir Már Birgisson, allir með 4 mörk. Daníel Freyr Andrésson varði 7 skot.
Í liði KA var Bjarni Ófeigur Valdimarsson með 4 mörk en hann fékk tvær brottvísanir í fyrri hálfleik sem skapaði vandræði fyrir KA. Nicolai Horntvedt Kristensen varði 5 skot og Bruno Bernat eitt skot fyrir KA í fyrri hálfleik.
Lið FH mætti öflugt inn í seinni hálfleikinn og hélt áfram að auka muninn í leiknum og má í raun segja að Hafnfirðingar hafi valtað yfir Norðanmenn því eftir 15 mínútna leik í seinni hálfleik var munurinn orðinn 10 mörk í stöðunni 28:18 fyrir FH. 
KA-menn reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn en náðu sjaldnast að komast undir 9 marka forskot FH. Þvert á móti náði FH 11 marka forskoti í stöðunni 34:23.
Fór svo að lokum að Hafnfirðingar unnu 11 marka stórsigur á Norðanmönnum 36:25.
Markahæstur í liði FH var Birgir Már Birgisson með 8 mörk. Daníel Freyr Andrésson varði 12 skot og Birkir Fannar Bragason 4.
Í liði KA var það Bjarni Ófeigur Valdimarsson sem skoraði 6 mörk. Nicolai Horntvedt Kristensen varði 7 skot og Bruno Bernat 1.
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

FH 36:25 KA opna loka
60. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert