Eva Lind Tyrfingsdóttir, Katla María Magnúsdóttir og Harpa Valey Gylfadóttir voru markahæstar hjá Selfossi þegar liðið hafði betur gegn Gróttu í nýliðaslag 9. umferðar úrvalsdeildar kvenna í handknattleik á Seltjarnarnesi í kvöld. Leiknum lauk með naumum sigri Selfoss, 20:18, en þær Eva, Katla og Harpa skoruðu fimm mörk hver í leiknum.
Selfoss fer með sigrinum upp í fjórða sæti deildarinnar í 8 stig en Grótta er í áttunda og neðsta sætinu með 4 stig, líkt og ÍR.
Leikurinn var í járnum nánast allan tímann en liðin skiptust á að leiða í fyrri hálfleik. Selfoss var sterkari aðilinn á lokamínútum fyrri hálfleiks og leiddi með þremur mörkum í hálfleik, 12:9.
Selfyssingar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og náði mest fimm marka forskoti, 14:9. Seltirningar neituðu að gefast upp og tókst að jafna metin í 16:16 þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka.
Selfoss náði tveggja marka forskoti þegar tíu mínútur voru til leiksloka, 18:16 og hélt forskotinu það sem eftir lifði leiks.
Cornelia Hermannsson átti stórleik í marki Selfoss og varði 17 skot en Katrín Anna Ásmundsdóttir og Ída Margrét Stefánsdóttir voru markahæstar hjá Gróttu með fjögur mörk hvor.
Mörk Gróttu: Katrín Anna Ásmundsdóttir 4, Ída Margrét Stefánsdóttir 4, Tinna Valgerður Gísladóttir 3, Lilja Hrund Stefánsdóttir 2, Karlotta Óskarsdóttir 2, Katrín S. Thorsteinsson 1, Daðey Ásta Hálfdánardóttir 1, Arndís Áslaug Grímsdóttir 1.
Varin skot: Anna Karólína Ingadóttir 14.
Mörk Selfoss: Eva Lind Tyrfingsdóttir 5, Katla María Magnúsdóttir 5, Harpa Valey Gylfadóttir 5, Anna Kristín Einarsdóttir 2, Hulda Dís Þrastardóttir 2, Hulda Hrönn Bragadóttir 1.
Varin skot: Cornelia Linnea Hermannsdóttir 17.