Skuldaði Frömurum að geta eitthvað

Rúnar Kárason í leiknum í gærkvöldi.
Rúnar Kárason í leiknum í gærkvöldi. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við spiluðum rosalega góða vörn eftir að hafa byrjað værukærir, vorum 7:1-undir eftir sex mínútur, það er svo mikil breyting að vinna með sjö.

Við náðum takti í vörnina, vorum að vanda okkur í sókninni og vorum þolinmóðir þar. Það er erfitt að spila við ÍBV sem er með mjög líkamlega sterkt lið, ég er ótrúlega stoltur af hópnum,“ sagði Rúnar Kárason sem átti frábæran leik í liði Fram sem lagði ÍBV að velli með sjö marka mun 36:29 í Vestmannaeyjum í gærkvöld. Rúnar átti magnaðan leik og skoraði tíu mörk.

„Það var verið að reka okkur mikið út af, það var erfitt að halda haus og á báða bóga var þetta erfiður leikur að spila. Mér fannst við höndla það betur en þeir í dag, sem var lykillinn að þessu,“ sagði Rúnar en Framarar virtust rólegir á hliðarlínunni þrátt fyrir að vera mörgum mörkum undir í blábyrjun leiksins.

Frábær sigur Framara í Eyjum



„Það var kannski sparkið sem við þurftum, ég tók einhver tvö skot upp úr engu, það var ekkert að gerast og svakalegt hik á okkur. Þetta var smá framhald af því sem við upplifðum í HK-leiknum og við höfðum aðeins talað um það, menn náðu þó strax að skipta um gír.“

Rúnar skoraði tíu mörk úr tólf skotum í dag og flest mörkin voru úr skotum þar sem Rúnar fékk ekki mikla mótspyrnu.

„Ég held að ég hafi verið að ná að skjóta frekar langt frá á köflum og náði að nýta mér það að ég þekki aðeins veiku blettina, ég skaut breitt af vellinum og ég efast um að þeir séu eitthvað brjálaðslega ánægðir með markmennina, en ég náði að hitta á daginn. Ég kann eftir öll þessi ár að nýta mér það, þeir mættu mér alveg helling, ég er blár og marinn eftir þetta en það var gaman að spila við strákana og þeir gefa ekki tommu eftir. Ég er búinn að spila fjóra leiki við ÍBV síðan ég skipti héðan, verið ömurlegur í þremur af þeim, þannig að ég skuldaði Frömurum að geta eitthvað og vildi sýna þeim að ég get eitthvað í handbolta.“

Rúnar hefur ekki verið að beita sér af fullum krafti í öllum leikjum deildarinnar til þessa, er hann í góðu formi og líður honum vel í líkamanum?

„Ég lenti í smá kálfaveseni en hef þó náð að vera með í öllum leikjunum, nema einum held ég. Ég þurfti að mjakast aðeins í form, ég missti af þremur vikum af undirbúningstímabilinu en ég æfði vel í sumar fyrir það. Við höfum aðeins verið að finna taktinn, krakkarnir voru veikir heima í gær þannig að ég fékk frí í vinnunni og kom afslappaður hingað, það hjálpaði líka til,“ sagði Rúnar en það er spurning hvort þar hafi hann fundið lykilinn að því að eiga stórkostlegan leik.

Framarar hafa verið að ná vopnum sínum.

„Við höfum haldið vel á spilunum eftir afhroð síðasta tímabils, menn hafa stækkað um númer og það er gaman að sjá hvað þetta eru einbeittir strákar, við stefnum á að vera með í þessu. Partur af því er að vinna eitthvað af þessum efstu fjórum liðum, sem við náðum ekki að gera í fyrra. Að ná að vinna hérna í Vestmannaeyjum er risastórt fyrir okkur sem klúbb og fyrir okkar vegferð, þannig við erum mjög ánægðir með það,“ sagði Rúnar að lokum sem fær að eyða kvöldinu í Vestmannaeyjum þar sem næsta ferð Herjólfs er ekki fyrr en í fyrramálið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert