Elliði Snær Viðarsson, línu- og varnarmaður íslenska landsliðsins í handknattleik, segir meiðsli sem hann er að glíma við ekki það alvarleg að þátttaka hans á HM 2025 sé í hættu.
Elliði Snær hefur misst af undanförnum leikjum með félagsliði sínu Gummersbach í Þýskalandi og var ekki með landsliðinu gegn Bosníu og Hersegóvínu og Georgíu í undankeppni EM 2026 á dögunum.
„Ég er með teygt aftara krossband og beinmar. En það ætti samt allt saman að gróa og lagast á næstu vikum. Það er í raun óvitað hvað ég þarf að hvíla lengi.
En það er frekar talið í vikum en mánuðum og samkvæmt læknum bæði heima og hérna úti er stórmótið ekki í hættu,“ sagði Elliði Snær í samtali við RÚV.
HM 2025 í Króatíu, Danmörku og Noregi hefst eftir tvo mánuði, þann 14. janúar, og stendur til 2. febrúar.