Valur vann stórsigur gegn HK í 10. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld en leiknum lauk með tíu marka sigri Vals, 33:23.
Eftir leikinn eru Valsmenn í þriðja sæti deildarinnar með 14 stig, stigi á eftir FH og Aftureldingu sem tróna á toppnum, en HK er í næstneðsta sæti deildarinnar með 5 stig.
Það fór aldrei á milli mála hvernig leikur kvöldsins myndi enda. Valsmenn skoruðu þrjú fyrstu mörk leiksins og á sama tíma varði Björgvin Páll Gústavsson fyrstu þrjú skot leikmanna HK í leiknum.
Lið HK skoraði eitt mark á fyrstu ellefu mínútum leiksins og komust Valsmenn í 6:1. Þá tók Vilhelm Gauti Bergsveinsson þjálfari HK leikhlé en hann stýrði liðinu í fjarveru Halldórs Jóhanns Sigfússonar sem tók út leikbann og sat í stúkunni.
HK-ingar reyndu hvað það þeir að minnka muninn en tókst ekki að minnka fimm marka forskot Valsmanna og Valur leiddi með sex mörkum í hálfleik, 15:9.
Markahæstur í liði Vals í fyrri hálfleik var Ísak Gústafsson með 4 mörk. Björgvin Páll Gústavsson varði 7 skot í marki Vals. Andri Þór Helgason skoraði 3 mörk, þar af eitt úr vítaskoti í liði HK og vörðu þeir Róbert Örn Karlsson og Jovan Kukobat sitthvort skotið í fyrri hálfleik.
Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og voru fljótlega komnir níu mörkum yfir, 19:10.
Valsmenn náðu tíu marka forsktoi, 25:15 en HK-ingum tókst að minnka muninn í sjö mörk, 26:19. Þá settu Valsmenn í gír og náðu aftur tíu marka forskoti, 29:19.
Það má því segja að Valsmenn hafi farið nokkuð þægilega í gegnum þennan leik og unnið að lokum öruggan sigur á HK. Lokatölur á Hlíðarenda 33:23 fyrir Val eins og fyrr segir.
Markahæstur í liði Vals var Úlfar Páll Monsi Þórðarson með 7 mörk, þar af tvö úr vítaskotum. Björgvin Páll Gústavsson varði 7 skot og Jens Sigurðarson varði 4 skot.
Í liði HK var Ágúst Guðmundsson með 5 mörk. Andri Þór Helgaskon skoraði 5 mörk, þar af 3 úr vítaskotum. Jovan Kukobat varði 5 skot og Róbert Örn Karlsson 1 skot.