Haukar og ÍR eru komin áfram í bikarkeppni karla í handbolta í dag. Haukar höfðu betur gegn ÍBV á Ásvöllum, 37:29.
Haukar byrjuðu viðureignina betur og voru fimm mörkum yfir, 11:6, um miðbik fyrri hálfleiks. Eyjamenn svöruðu fyrir sig og náðu að minnka muninn í eitt mark þegar flautað var til hálfleiks, 15:14.
Haukar náðu góðri stjórn á leiknum í síðari hálfleik og unnu að lokum sannfærandi sigur, 37:29.
Össur Haraldsson fór á kostum í liði Hauka og skoraði 13 mörk. Í liði Eyjamanna voru Sigtryggur Daði Rúnarsson og Kári Kristján Kristjánsson markahæstir með sex mörk hvor.
Aron Rafn Eðvarðsson varði 11 skot í marki Hauka eða var með 40% markvörslu.
ÍR gerði góða ferð til Akureyrar og lagði Þór, 38:32.
Þórsarar fóru betur af stað og komust mest fimm mörkum yfir í fyrri hálfleik, 9:4. ÍR átti hins vegar góðan lokakafla í fyrri hálfleik og var staðan 17:16 fyrir Þór í leikhléi.
Mikið jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik og var staðan 28:28 þegar rúmar 10 mínútur voru eftir af leiknum. Þá náðu ÍR-ingar tökum á leiknum og unnu að lokum sex marka sigur, 38:32.
Hrannar Ingi Jóhannsson átti stórleik fyrir ÍR en hann skoraði 13 mörk. Brynjar Hólm Grétarsson var markahæstur í liði Þórs með átta mörk.