Hörður á Ísafirði fékk KA í heimsókn í 16-liða úrslitum bikarkeppni karla í handbolta í kvöld. KA sigraði með þremur mörkum, 30:27.
Hörður er með sex stig eftir jafnmarga leiki í næstefstu deild en KA er í 10. sæti með fimm stig í efstu deild.
Hörður var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 18:16, en KA jafnaði og komst yfir í 22:21 þegar rétt rúmlega tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og lét forystuna ekki af hendi eftir það, lokatölur 30:27.
Einar Birgir Stefánsson var markahæstur hjá KA með sex mörk og þar á eftir var Patrekur Stefánsson með fimm. Bruno Bernat varði 10 skot og Nicolai Horntvedt Kristensen þrjú.
Endijs Kusners var markahæstur hjá Herði með sjö mörk og Daníel Wale Adeleye skoraði fimm. Jonas Maier varði 16 skot og skoraði eitt mark.
Haukar, ÍR, Stjarnan og KA eru komin í átta liða úrslit eftir leiki dagsins en tveir leikir fara svo fram á morgun: Víkingur og Fram, HK og Afturelding.
Níunda desember mætast svo Selfoss og FH á Selfossi og Valur og Grótta á Hlíðarenda.