Afturelding tryggði sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í handknattleik með því að hafa betur gegn HK, 28:24, í 16-liða úrslitum í Kórnum í kvöld.
Afturelding byrjaði leikinn betur og komst fimm mörkum yfir, 9:4, eftir tæplega tíu mínútna leik.
HK vann sig í kjölfarið vel inn í leikinn og var búið að minnka muninn niður í aðeins eitt mark, 14:13, þegar fyrri hálfleikur var á enda.
Í síðari hálfleik var Afturelding við stjórn og komst mest fimm mörkum yfir í stöðunni 24:19 þegar rúmar átta mínútur lifðu leiks.
HK reyndi hvað það gat til þess að komast nær Aftureldingu, sem hleypti heimamönnum hins vegar ekki nær en tveimur mörkum í síðari hálfleik og vann að lokum fjögurrar marka sigur.
Blær Hinriksson var markahæstur hjá Aftureldingu með átta mörk og Birgir Steinn Jónsson bætti við sex mörkum.
Einar Baldvin Baldvinsson átti magnaðan leik í marki Aftureldingar en hann varði 18 skot og var með 44 prósent markvörslu.
Sigurður Jefferson Guarino var markahæstur hjá HK, einnig með átta mörk. Andri Þór Helgason skoraði fimm mörk.