Mætum liði úr efstu hillu

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH.
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH. mbl.is/Eyþór

„Verkefnið leggst vel í okkur. Við gerum okkur allir grein fyrir því hvernig síðasti leikur fór á móti þeim og okkur klæjar í fingurna að fá að sýna betri leik og mæla okkur aftur við þá,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari karlaliðs FH í handbolta, í samtali við miðla félagsins fyrir leik gegn Gummersbach í Evrópudeildinni.

FH steinlá fyrir gamla þýska stórveldinu í Kaplakrika í síðasta mánuði, 21:40. Liðin mætast aftur í Gummersbach klukkan 17.45 í dag.

„Það var margt sem við vorum ósáttir við í síðasta leik á móti þeim. Að sama skapi erum við auðmjúkir og gerum okkur grein fyrir því að við erum að mæta liði úr hæstu hillu,“ hélt Sigursteinn áfram.

Mikill skóli að spila á þessu sviði

Spurður hvert markmið FH væri í leiknum sagði hann:

„Það er í rauninni það sama og fyrir alla hina Evrópuleikina. Við erum að taka þátt í þessari keppni til þess að stækka sem einstaklingar og lið. Við ætlum að reyna að taka sem mest út úr þessu. Við höfum fundið það að þátttaka okkar í þessari keppni er búin að hjálpa okkur heima fyrir.

Við erum orðnir þéttari og öruggari með margt í okkar leik. Þess vegna erum við ánægðir með að fá að mæla okkur aftur við þá á morgun [í dag].“

Sigursteinn kvaðst þá ánægður með unga leikmenn sína.

„Já, það er engin spurning. Það er mikill skóli að taka þátt í keppni sem þessari og spila á þessu sviði. Ungu mennirnir hafa tekið framförum en mér finnst fyrst og síðast sem liðið sé búið að bregðast ótrúlega vel við og bæta sig milli leikja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert