Valur og stórlið Vardar frá Skopje í Norður-Makedóníu gerðu jafntefli, 34:34, í hörkuleik í 5. umferð F-riðils Evrópudeildar karla í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld.
Valur er áfram á botni riðilsins, nú með tvö stig, Vardar er sæti ofar með þrjú stig. Bæði lið eru úr leik og fara ekki áfram í 16-liða úrslit.
Valur var með forystu nánast allan fyrri hálfleikinn. Valsmenn byrjuðu á því að komast í 2:0 og eftir að Vardar jafnaði metin í 4:4 og 5:5 bætti Valur í og komst þremur mörkum yfir, 11:8.
Heimamenn gerðu enn betur og juku forystuna í fimm mörk, 14:9, eftir tæplega 19 mínútna leik.
Þá tóku gestirnir frá Skopje leikhlé og við það batnaði leikur gestanna töluvert. Ekki leið á löngu þar til Vardar minnkaði muninn niður í eitt mark, 15:14, og þá tók Valur leikhlé.
Valur náði nokkrum sinnum tveggja marka forystu á ný í kjölfarið en var munurinn aðeins eitt mark, 18:17, að fyrri hálfleiknum loknum.
Valsmenn léku vel stærstan hluta fyrri hálfleiksins þar sem vörnin var sterk og sóknarleikurinn með besta móti. Stórlið Vardar refsaði hins vegar ávallt minnstu mistökum og því skildi ekki meira á milli liðanna í hálfleik.
Í síðari hálfleik var allt í járnum. Valur byrjaði á því að komast tveimur mörkum yfir, 21:19, en Vardar brást vel við og komst yfir í fyrsta sinn í leiknum í stöðunni 23:24.
Valur náði aftur vopnum sínum og náði þriggja marka forystu, 29:26. Áfram voru sveiflur í leiknum og Vardar brást við með því að jafna metin í 30:30.
Valur svaraði með því að komast í 32:30 en Vardar skoraði í kjölfarið þrjú mörk í röð og komst yfir í aðeins annað sinn í leiknum, 32:33.
Valur sneri taflinu við í 34:33 en á lokasekúndunni fékk Vardar vítakast, skoraði úr því og tryggði sér jafntefli.