Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari Íslendingaliðs Gummersbach, var ánægður með átta marka sigur á Íslandsmeisturum FH í H-riðli Evrópudeildar karla í handbolta í gærkvöldi og hrósaði um leið íslenska liðinu fyrir sína frammistöðu.
„Ég er mjög ánægður með þennan leik. Við þurftum stig til þess að komast áfram, við kláruðum það verkefni. Ég vil bara lýsa yfir ánægju minni og virðingu fyrir FH-liðinu, hvernig þeir nálguðust leikinn og spiluðu í kvöld, hvernig þeir stóðu sig.
Fyrir mig sérstaklega og Teit [Örn Einarsson] er það að fá að spila við Íslendinga sérstakt. Það er gaman að sjá hversu margir leikmenn og hversu margir eru hérna í kringum liðið. Mér finnst alveg æðislegt að fá að taka þátt í þessu,“ sagði Guðjón Valur í samtali við miðla FH eftir leik.
Spurður hver munurinn væri á toppliði á Íslandi og toppliði í Þýskalandi sagði hann:
„Við getum sagt að líkamlegi munurinn er þónokkur. Eins og ég sagði eftir fyrri leikinn mættu sérstaklega ungu strákarnir í FH taka það til sín.
Þeir eru ennþá þónokkrum árum yngri heldur en margir eru hjá mér til dæmis. Þetta er bara munurinn á atvinnumennsku og áhugamennsku. En það eru gríðarlega margir efnilegir leikmenn sem FH hefur innan sinna raða og voru að gera þetta vel.
Þeir eru að spila og stíga sín fyrstu skref í alþjóðabolta með félagsliði. Það er ofsalega gaman að fylgjast með því. Ég verð á hliðarlínunni að fylgjast með því áfram.“
Hjá liði sem tekur þátt í Evrópukeppni er skammt á milli leikja. Guðjón Valur nýtur þess að fá marga stóra leiki með stuttu millibili.
„Við erum að spila á móti Kiel hérna á heimavelli á föstudaginn, svo förum við til Svíþjóðar og spilum við Sävehof á þriðjudaginn áður en við förum áfram til Mannheim og spilum við Rhein-Neckar Löwen á fimmtudaginn eftir það.
Þannig að þetta heldur alltaf áfram. Svona er bara lífið í þessu og það er gaman að fá að taka þátt í því. Maður vill náttúrlega mæla sig við þá bestu og við hlökkum bara til,“ sagði hann að lokum.