KA vann fallslaginn

Björgvin Páll Rúnarsson skýtur að marki KA í kvöld.
Björgvin Páll Rúnarsson skýtur að marki KA í kvöld. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson

KA vann mikilvægan sigur á nýliðum Fjölnis, 27:23, í fallslag í 11. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik í kvöld.

Með sigrinum fór KA upp fyrir Fjölni í deildinni. KA er í níunda sæti með sjö stig og Fjölnir er sæti neðar með sex.

Jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik en eftir að Fjölnir minnkaði muninn niður í 12:10 var KA sterkari aðilinn og leiddi með fjórum mörkum, 15:11, þegar flautað var til hálfleiks.

Akureyringar hófu síðari hálfleikinn af krafti, skoruðu fyrstu tvö mörk hans og náðu þannig sex marka forystu, 17:11.

Eftir það reyndist gestunum úr Grafarvogi erfitt að saxa á forskot KA-manna, sem hleypti þeim ekki nær en þremur mörkum og vann að lokum sætan fjögurra marka sigur.

Ott Varik var markahæstur hjá KA með sjö mörk. Einar Rafn Eiðsson bætti við sex mörkum.

Nicolai Horntvedt fór á kostum í marki KA og varði 20 skot. Var hann með tæplega 49 prósent markvörslu.

Björgvin Páll Rúnarsson var markahæstur hjá Fjölni, einnig með sjö mörk. Sigurður Ingiberg Ólafsson lék afar vel í markinu, varði 15 skot og var með 37,5 prósent markvörslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert