Aftur tapaði Ísland með minnsta mun

Andrea Jacobsen átti frábæran leik fyrir Ísland í dag.
Andrea Jacobsen átti frábæran leik fyrir Ísland í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mætti Sviss í lokaleik undirbúnings liðsins fyrir Evrópumótið í handbolta í Sviss í dag. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og endaði með svekkjandi tapi, 29:28.

Íslenska liðið kom grimmt til leiks og leiddi að loknum fyrri hálfleik með þremur mörkum, 12:9 og var liðið mest fimm mörkum yfir snemma í síðari hálfleik. En síðan komst svissneska liðið betur inn í leikinn og náði að komast yfir undir lok leiks og tryggja sér sigur.

Andrea Jacobsen var markahæst hjá íslenska liðinu með níu mörk og Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði fimm.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði þá sjö skot í marki Íslands og Hafdís Renötudóttir varði þrjú.

Þetta var annað tapið fyrir Sviss á örfáum dögum en liðið tapaði fyrri leiknum einnig með einu marki.

Nú tekur við stutt ferðalag yfir til Austurríkis þar sem liðið spilar á Evrópumótinu og mætir Hollandi í fyrsta leik föstudaginn 29. nóvember nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert