Haukar sóttu tvö stig í Mosfellsbæ

Skarphéðinn Ívar Einarsson var drjúgur fyrir Hauka í kvöld.
Skarphéðinn Ívar Einarsson var drjúgur fyrir Hauka í kvöld. mbl.is/Hákon

Haukar styrktu stöðu sína í efri hluta úrvalsdeildar karla í handknattleik í kvöld með því að sigra topplið Aftureldingar í Mosfellsbæ, 29:26.

Haukar eru þá komnir með 14 stig í fimmta sæti deildarinnar og söxuðu á toppliðin. FH og Afturelding eru með 17 stig, Valur 16 og Fram 15 stig í fjórum efstu sætunum.

Afturelding byrjaði betur og komst í 5:1 en Haukar skoruðu ekki fyrr en á 9. mínútu og gerðu sitt annað mark á fimmtándu mínútu.

Það var þó fljótt að breytast, Haukar jöfnuðu í 8:8 og komust síðan í 13:10 rétt fyrir hlé. Afturelding lagaði stöðuna og Haukar voru yfir í hálfleik, 14:13.

Seinni hálfleikurinn var síðan æsispennandi og jafnt á nær öllum tölum þar til Haukar tóku sig til og skoruðu þrjú mörk röð og voru komnir í 27:24 þegar sex mínútur voru til leiksloka. Það var of mikið fyrir Mosfellinga og Haukarnir sigldu sigrinum heim á lokamínútunum.

Mörk Aftureldingar: Birgir Steinn Jónsson 9, Ihor Kopyshynskyi 5, Þorvaldur Tryggvason 4, Kristján Ottó Hjálmsson 3, Árni Bragi Eyjólfsson 3, Harri Halldórsson 1, Stefán Magni Hjartarson 1. Einar Baldvin Baldvinsson varði 13 skot.

Mörk Hauka: Skarphéðinn Ívar Einarsson 7, Freyr Aronsson 4, Þráinn Orri Jónsson 4, Birkir Snær Steinsson 3, Össur Haraldsson 3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 2, Adam Haukur Baumruk 2, Andri Fannar Elísson 1, Jakob Aronsson 1, Geir Guðmundsson 1. Aron Rafn Eðvarðsson varði 6 skot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka