Tíu frá Óðni og Gummersbach vann

Óðinn Þór Ríkharðsson var einu sinni sem oftar markahæstur hjá …
Óðinn Þór Ríkharðsson var einu sinni sem oftar markahæstur hjá Kadetten. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hornamaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson var enn einu sinni í banastuði með svissneska liðinu Kadetten í kvöld þegar það vann stórsigur á Tatran Presov frá Slóvakíu, 39:26, í lokaumferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik.

Óðinn var kominn með átta mörk þegar flautað var til hálfleiks og var markahæstur hjá Kadetten með tíu mörk úr ellefu skotum.

Sigurinn dugði þó ekki fyrir Kadetten sem endaði í þriðja sæti C-riðils keppninnar, á eftir Benfica frá Portúgal og Limoges frá Frakklandi.

Limoges vann heimasigur á Benfica, 36:28, og gulltryggði sér annað sætið en Benfica hafði unnið alla sína leiki og var búið tryggja sér sigur í riðlinum. Stiven Tobar Valencia skoraði eitt mark fyrir Benfica.

Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, vann Sävehof í Svíþjóð, 28:25, í lokaumferð H-riðils og vann hann með 10 stig af 12 mögulegum. Sävehof endar með 4 stig í þriðja sætinu og er úr leik eins og FH sem mætir Toulouse frá  Frakklandi í lokaleiknum í Kaplakrika í kvöld.

Teitur Örn Einarsson skoraði tvö mörk fyrir Gummersbach en Elliði Snær Viðarsson var ekki með liðinu vegna meiðsla. Tryggvi Þórisson skoraði eitt mark fyrir Sävehof.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert