Valur tapaði í kvöld fyrir Porto, 37:29, á útivelli í lokaumferð F-riðils í Evrópudeild karla í handbolta. Valur endar í neðsta sæti síns riðils með tvö stig.
Valsmenn byrjuðu vel og skoruðu tvö fyrstu mörkin. Porto svaraði og komst í 7:6 en það var í eina skiptið sem heimamenn voru yfir í fyrri hálfleik.
Valsliðið var fljótt að jafna og komst aftur tveimur mörkum yfir í stöðunni 15:13. Liðin skiptust á að skora út hálfleikinn og var staðan í hálfleik 18:17.
Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoraði fimm mörk fyrir Val í hálfleiknum. Þorsteinn Leó Gunnarsson gerði eitt fyrir Porto.
Porto byrjaði seinni hálfleikinn á að komast tveimur mörkum yfir. Í stöðunni 24:23 skoraði Porto sex mörk í röð og voru Valsmenn ekki líklegir til að jafna eftir það.
Munurinn var átta mörk þegar tíu mínútur voru eftir, 32:24. Skiptust liðin á að skora eftir það og átta marka sigur Porto varð raunin.
Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoraði sex mörk fyrir Val og þeir Agnar Smári Jónsson og Allan Norðberg fjögur hvor. Ricardo Brandao gerði sex fyrir Porto. Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði þrjú fyrir portúgalska liðið.