Haukar dæmdir úr leik fyrir brot á reglu

Daniel Esteves Vieira og Skarphéðinn Ívar Einarsson í baráttunni í …
Daniel Esteves Vieira og Skarphéðinn Ívar Einarsson í baráttunni í bikarleik liðanna fyrir tíu dögum. Hákon Pálsson,Hákon

ÍBV verður í pottinum í stað Hauka þegar dregið verður í átta liða úrslit bikarkeppni karla í handknattleik í hádeginu. 

Þetta kemur fram í úrskurði Dómstóls HSÍ en Haukar unnu sannfærandi sigur á ÍBV, 37:29, í 16-liða úrslitum bikarsins fyrir rúmri viku. 

Hins vegar hefur Eyjamönnum verið dæmdur 10:0-sigur eftir að hafa krafist sigurs vegna brots Hauka á þeirri reglu að ekki megi breyta leikskýrslu innan við 60 mínútum fyrir leik. 

Í samtali við mbl.is sagði Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri að líklegt væri að Haukar myndu áfrýja dómnum en þeir hafa þriggja daga frest til þess. 

Því verður drátturinn opinn en það lið sem dregst á móti ÍBV mun einnig geta mætt Haukum, það fer eftir því hver niðurstaðan í málinu verður.  

Haukar ósammála dómnum

Fulltrúi Hauka tók eftir því að nafn Helga Marinós Kristóferssonar stóð á leikskýrslunni en í stað hans átti Andri Fannar Elísson að vera. 

Hann breytti leikskýrslunni í kjölfarið, en þá var minna en klukkutími í leik. 

Líkt og áður kom fram þykir líklegt að Haukar muni áfrýja dómnum. Í úrskurði Dómstóls HSÍ kemur fram að Haukar hafi fært rök fyrir því að eftirlitsmaður hafi mætt seint á tæknifund sem og að liðsstjóri ÍBV hafi yfirgefið fundinn um tíma.

Hluta af úrskurði Dómstóls HSÍ, hvað snertir kvörtun Hauka, má lesa hér að neðan en í heild sinni má finna úrskurðinn hér. 

Að mati dómsins hefur ekki verið sýnt fram á að tæknileg nauðsyn sé fyrir því að leikskýrslur séu prentaðar út til að unnt sé að fara yfir efni þeirra og gera á þeim breytingar. Verður raunar ráðið af málavöxtum að breytingar á leikskýrslu séu gerðar í tölvukerfinu „HB ritari“ en ekki á útprentuðum leikskýrslum.Fær það stoð í greinargerð HSÍ í málinu, þar sem segir að í framkvæmd mæti félögin með útprentaðar skýrslur á tæknifund, leikskýrslan sé þessu næst fyllt út í forritinu HB ritari og hún svo staðfest með því að slegið er inn „pin“ númer félagsins í tölvukerfið.

Kærði hefur að sama skapi ekki sýnt fram á að í gildi sé venja þess efnis að farið sé yfir leikskýrslu útprentaða áður en hún er staðfest, en um það atriði ber kærði sönnunarbyrði. Jafnvel þó slík venja væri til staðar, eða útprentun leikskýrslu væri nauðsynlegur þáttur í yfirferð og staðfestingu leikskýrslu, breytir það ekki fortakslausu ákvæði áðurnefndrar 8. mgr. 7. gr. reglugerðar HSÍ um að leikskýrsla skuli liggja fyrir 60 mínútum fyrir leik og eftir það sé óheimilt að gera á henni breytingar. Kærði hefur jafnframt borið því við að eftirlitsmaður hafi mætt seint á tæknifund, auk þess sem liðsstjóri kæranda hafi yfirgefið fundinn um tíma. Ekki verður séð að lög, reglugerðir eða handbækur HSÍ geymi leiðbeiningar um afleiðingar þess ef óviðráðanlegar aðstæður koma í veg fyrir að tæknifundur verði haldinn með þeim hætti sem lýst er í 7. gr. reglugerðar HSÍ um handknattleiksmót. Þar af leiðandi er ekki loku fyrir það skotið bregðast þurfi við með sérstökum hætti ef aðstandendum leikja er af einhverjum ástæðum ókleift að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar um form og efni tæknifundar. Slíkar aðstæður verða þó ekki taldar vera uppi í þessu máli. Óumdeilt er að kl. 14:57 í síðasta lagi hafi bæði kærandi og kærði verið í aðstöðu til að staðfesta leikskýrslur í forritinu „HB ritari“, enda slógu þá forráðamenn beggja aðila inn „pin“ númer sín í forritið. Báðum aðilum var því kleift að gera breytingar á leikskýrslu meira en 60 mínútum fyrir leik og máttu báðir aðilar vita að eftir það tímamark var óheimilt að gera á þeim breytingar.

Þar sem óumdeilt er að kærði gerði breytingar á leikskýrslu sinni þegar minna en 60 mínútur voru til leiks verður að telja að þær breytingar hafi verið óheimilar. Þar af leiðandi hafi kærða verið óheimilt að nota leikmann nr. 84, Andra Fannar Róbertsson, í leiknum. Óumdeilt er að leikmaðurinn tók þátt í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert