„Líðan mín er ömurleg,“ sagði Díana Dögg Magnúsdóttir, landsliðskona í handbolta, í samtali við mbl.is eftir tapið gegn Þýskalandi á Evrópumótinu í kvöld, 30:19. Úrslitin þýða að Ísland er úr leik.
„Mér fannst við ekki spila þennan leik nógu vel. Við hefðum getað staðið vörnina betur því við fáum allt of mikið af mörkum á okkur og sérstaklega eftir aukaköst. Í sókninni vorum við mikið að gera þetta ein á ein og erum ekki mikið að stilla upp fyrir hverja aðra.
Við létum þær ekki vinna nógu mikið í kringum línumennina okkar. Við þurfum að hafa meira fyrir því. Við gerum okkur rosalega erfitt fyrir,“ sagði Díana svekkt.
Hún hefur spilað í Þýskalandi undanfarin ár og kom ekkert í þýska liðinu henni á óvart.
„Mér fannst ekkert koma á óvart. Þær spiluðu eins og ég átti von á. Við erum ekki eins sterkar líkamlega. Við látum rífa í okkur og stoppa okkur í staðinn fyrir að fara í gegn. Þær fengu að gera sitt of auðveldlega. Við vorum ekki svör við því,“ sagði hún.
Ísland er á sínu öðru stórmóti á tveimur árum og Díana vildi sjá liðið spila betur í hreinum úrslitaleik um sæti í milliriðli.
„Þetta var frábær reynsla en við fengum margar þessa reynslu á HM í fyrra. Við hefðum getað komið öðruvísi inn í þennan leik. Pressan átti að vera á þýska liðinu en við tókum hana kannski til okkar. Særð dýr eru oftast hættulegustu dýrin,“ sagði Díana.