Ómar Ingi missir af HM

Ómar Ingi Magnússon.
Ómar Ingi Magnússon. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Ómar Ingi Magnússon verður ekki með íslenska karlalandsliðinu í handknattleik á heimsmeistaramótinu í Króatíu í janúar.

Þýska félagið Magdeburg tilkynnti núna í hádeginu að meiðslin sem Ómar varð fyrir í leiknum gegn Bietigheim um helgina væru þess eðlis að hann yrði frá keppni í þrjá mánuði.

Ómar meiddist á ökkla í leiknum þegar hann féll illa á upphafsmínútunum og var borinn af velli.

Þetta er mikið áfall fyrir bæði íslenska landsliðið og Magdeburg en Ómar er í algjöru lykilhlutverki í báðum liðum.

Miðað við tímarammann getur hann byrjað að spila á ný með Magdeburg snemma í mars og myndi því ná seinni hlutanum af undankeppni Evrópumótsins með íslenska landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert