„Í fyrstu þá vonaðist ég til þess að þetta væri bara leiðinleg tognun en eftir því sem leið á þá áttaði ég mig á því að þetta væri eitthvað aðeins meira en bara tognun,“ sagði Ómar Ingi Magnússon, varafyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is.
Ómar Ingi meiddist í leik með félagsliði sínu Magdeburg gegn Bietigheim í þýsku 1. deildinni á sunnudaginn síðasta.
Í dag tilkynnti Magdeburg svo að Ómar Ingi yrði frá í þrjá mánuði vegna meiðslanna og myndi af þeim sökum missa af HM sem hefst í næsta mánuði.
„Ég er með slitin liðbönd í ökklanum, eitt að utan og eitt að innan og svo er þetta beinmar líka,“ sagði Ómar Ingi.
„Það er venjulega talað um sex til tólf vikur sem það tekur að jafna sig á svona meiðslum. Versta mögulega útkoman væru þrír mánuðir frá keppni en það fer aðeins eftir einkennum þannig að þetta er mjög opið.
Það bendir flest til þess að ég verði frá út janúar, einhverjar átta vikur. Þetta er ennþá opið og það er ýmislegt sem spilar inn í. Ég er að bíða eftir áliti frá fleiri læknum og við þurfum bara aðeins að bíða og sjá,“ sagði Ómar Ingi.
Er hann sjálfur búinn að afskrifa það að spila með landsliðinu á HM?
„Það yrðu gríðarlega mikil vonbrigði fyrir mig ef ég get ekki tekið þátt í mótinu, ef það verður raunin. Ég er ekki alveg búinn að átta mig almennilega á þessu en það kemur eflaust þegar líða fer að móti.
Það er allavega alveg klárt mál að þetta gæti staðið ansi tæpt, ef þetta á að ganga. Maður bíður bara og vonar að þetta gangi allt saman upp og svo gerir maður allt sem maður getur sjálfur til þess að vera með.
Ef ég fæ skilaboð frá öllum læknum í kringum mig að ég þurfi að vera rólegur í sex vikur þá er það bara staðan og þá er lítið vit í því að ætla að fara aftur af stað á stórmóti,“ sagði Ómar Ingi í samtali við mbl.is.