Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, heldur enn í vonina um það að Ómar Ingi Magnússon, varafyrirliði landsliðsins, geti tekið einhvern þátt með liðinu á heimsmeistaramótinu í janúar.
Þetta tilkynnti landsliðsþjálfarinn í samtali við mbl.is en Ómar Ingi meiddist illa á ökkla í leik með félagsliði sínu Magdeburg gegn Bietigheim í þýsku 1. deildinni á sunnudaginn síðasta.
Í dag tilkynnti svo Magdeburg að Ómar Ingi yrði frá keppni vegna meiðslanna í þrjá mánuði og myndi af þeim sökum missa af heimsmeistaramótinu í Króatíu, Danmörku og Noregi sem hefst þann 14. janúar.
„Þessi tilkynning hjá Magdeburg kom mér á óvart ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ sagði Snorri Steinn í samtali við mbl.is.
„Það getur vel verið að hann verði lengi frá og að þetta sé rétt metið hjá þeim. Líkurnar eru vissulega meiri en minni og þetta lítur ekki vel út og allt það en ég er ekki tilbúinn að afskrifa Ómar Inga og hans þátttöku með okkur á HM.
Hann er klárlega illa meiddur og það eru talsverðar líkur á því að hann missi af einhverjum hluta af HM en það segir sig sjálft að ef það eru einhverjar líkur á því að hann geti tekið eitthvað þátt í þessu með okkur þá loka ég ekki á það,“ sagði Snorri Steinn.
Snorri viðurkennir að hann gæti þurft að endurhugsa hlutina upp á nýtt, fari svo að Ómar Ingi verði ekki með liðinu á HM.
„Það er nokkuð ljóst að næstu dagar fara aðeins í það hjá mér að endurhugsa hlutina. Það segir sig sjálft þegar jafn góður leikmaður og Ómar Ingi er meiddur. Viggó Kristjánsson hefur hins vegar staðið sig frábærlega fyrir okkur og reynst liðinu mjög vel.
Ég mun samt þurfa að gera ákveðnar áherslubreytingar, meðal annars á taktík og öðru. Við erum í þeirri stöðu að Ómar Ingi mun ekki taka þátt á HM í þeirri mynd sem við sáum fyrir okkur og ef hann getur tekið einhvern þátt þá eru allar líkur á því að hann verði ekki í miklu leikformi.
Þetta skýrist betur á næstu tveimur til þremur vikum og í hvaða átt þessi endurhæfing þróast hjá honum. Þetta er auðvitað verst og leiðinlegast fyrir Ómar sjálfan,“ sagði Snorri Steinn í samtali við mbl.is.