Bjarki sterkur í Íslendingaslag

Bjarki Már Elísson lék vel í Íslendingaslag.
Bjarki Már Elísson lék vel í Íslendingaslag. Eggert Jóhannesson

Ungverska liðið Veszprém sigraði Fredericia frá Danmörku, 40:31, á útivelli í Meistaradeild Evrópu í handbolta í Íslendingaslag í kvöld.

Bjarki Már Elísson átti flottan leik fyrir Veszprém og skoraði sex mörk. Aron Pálmarsson gerði tvö. Einar Þorsteinn Ólafsson komst ekki á blað hjá Fredericia og Arnór Viðarsson er frá vegna meiðsla. Guðmundur Guðmundsson þjálfar Fredericia.

Veszprém er á toppi A-riðils með 18 stig en Fredericia á botninum með aðeins þrjú.

Í sama riðli máttu Viktor Gísli Hallgrímsson og liðsfélagar hans hjá Wisla Plock þola tap á útivelli gegn Pelister frá Norður-Makedóníu, 21:18. Viktor varði sex skot í marki pólska liðsins, sem er í sjöunda sæti með fjögur stig.

Í B-riðli máttu Íslendingaliðin þola naum töp á útivelli. Kolstad frá Noregi tapaði fyrir Kielce frá Póllandi, 31:30. Arnór Snær Óskarsson skoraði fjögur mörk fyrir Kolstad, Sveinn Jóhannsson tvö og þeir Sigvaldi Björn Guðjónsson og Benedikt Gunnar Óskarsson sitt markið hvor. Kolstad er í sjöunda sæti með sex stig.

Þýska liðið Magdeburg tapaði fyrir Nantes frá Frakklandi, 29:28. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk fyrir Magdeburg. Ómar Ingi Magnússon lék ekki með liðinu vegna meiðsla. Magdeburg er í sjötta sæti með sjö stig.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert