Íslenska kvennalandsliðið í handbolta verður í efri styrkleikaflokki þegar dregið verður í umspilið fyrir heimsmeistaramót kvenna árið 2025 í höfuðstöðvum EHF í Vínarborg í Austurríki, sunnudaginn 15. desember.
Íslenska liðið hafnaði í 16. sæti á nýliðnu Evrópumeistaramóti og tryggir það liðinu sæti í efri styrkleikaflokki í fyrsta sinn. Færeyingar verða einnig í efri styrkleikaflokki en liðið hafnaði í 17. sæti á EM.
Ríkjandi heimsmeistarar Frakklands og gestgjafar Hollands og Þýskalands þurfa ekki að fara í umspilið fyrir HM. Þá munu þrjár þjóðir sem enda í efstu þremur sætunum á EM sem nú stendur yfir, einnig fara beint á HM.
Alls verða 22 lið í pottinum þegar dregið verður í umspilið en HM 2025 fer fram í Hollandi og Þýskalandi og stendur yfir frá 27. nóvember til 14. desember.
Ísland getur mætt eftirtöldum þjóðum úr neðri styrkleikaflokki í umspilinu: Serbía, Króatía, Norður-Makedónía, Úkraína, Slóvakía, Portúgal, Tyrkland, Ísrael, Kósóvó, Litháen og Ítalía. Umspilð fer fram dagana 9. til 13. apríl.