Haukar og KA áttust við í 13. umferð Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Hauka 38:31 í miklum markaleik.
Það var jafnt á með liðunum í upphafi leiks þrátt fyrir að Haukar hafi haft yfirhöndina mestallan hálfleikinn. Lítið var um varnir og markvörslu í fyrri hálfleik en eftir 15 mínútna leik var staðan 14:11 fyrir Haukum og liðin búin að skora 25 mörk á korteri.
Eftir þetta juku Haukamenn muninn jafnt og þétt og náðu að lokum 8 marka forskoti sem þeir fóru með inn í hálfleikinn.
Það má segja að varnir beggja liða hafi verið litlar sem engar því liðin skoruðu samtals 40 mörk í fyrri hálfleik. Markvarslan var dræm en liðin vörðu samtals 11 skot í fyrri hálfleik.
Staðan í hálfleik var 24:16 fyrir Haukum.
Markahæstur í liði Hauka í fyrri hálfleik var Össur Haraldsson með 7 mörk. Aron Rafn Eðvarðsson varði 7 skot.
Í liði KA var Einar Birgir Stefánsson með 6 mörk. Bruno Bernat og Nicolai Kristensen vörðu sitthvor tvö skotin.
KA-menn skoruðu fyrsta mark seinni hálfleiks þegar Logi Gautason skoraði utan af velli. Haukamenn svöruðu strax í sömu mynt en eftir það fóru Norðanmenn að saxa á forskot Hauka og þegar 10 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik voru KA-menn búnir að minnka muninn í fjögur mörk í stöðunni 27:23. Þá tók Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka leikhlé.
Það dugði skammt því KA-menn héldu áfram að minnka muninn og eftir rúmlega 45 mínútna leik var staðan 28:26 fyrir Haukum og leikurinn orðinn spennandi.
Haukar tóku loks við sér aftur og juku muninn aftur jafnt og þétt. Komust þeir aftur fimm mörkum yfir þegar Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA tók leikhlé.
Það breytti engu því Haukamenn gáfu ekkert eftir og spiluðu fínan handbolta það sem eftir lifði leiks. Þegar um 7 mínútur voru eftir af leiknum var staðan 34:27 fyrir Haukum sem voru búnir að vinna upp markamuninn á nýjan leik.
KA-menn reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn og gera atlögu að betri niðurstöðu fyrir sig en allt kom fyrir ekki og unnu Haukar sannfærandi sigur eins og áður segir.
Það sem bæði lið þurfa þó að huga að fyrir næsta leik eru varnir og markvarsla því það er alltof mikið að fá á sig hvort heldur sem er 38 mörk eða 31 mark.
Markahæstir í liði Hauka í kvöld voru þeir Össur Haraldsson og Skarphéðinn Ívar Einarsson með 7 mörk hvor. Aron Rafn Eðvarðsson varði 14 skot.
Í liði KA skoraði Einar Birgir Stefánsson 9 mörk. Bruno Bernat varði 2 skot og Nicolai Kristensen 8 skot, þar af eitt vítaskot.
Haukar fara næst í Breiðholtið þann 12. desember og leika gegn ÍR á meðan KA-menn leika gegn Aftureldingu á Akureyri þann 14. desember.