Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Örvhenta skyttan Rut Jónsdóttir lék með landsliðinu í lokakeppni EM í handknattleik í Austurríki á dögunum og miðlaði þar af reynslu sinni en reynsla og upplifun Rutar úr atvinnumennskunni verður ekki keypt út í búð.
Varð hún til að mynda fyrst íslenskra kvenna til að verða danskur meistari í handknattleik. Árið 2019 varð hún danskur meistari með Esbjerg og sigraði í Evrópukeppni félagsliða, EHF-bikarnum með Tvis Hosterbro árið 2013 ásamt Þóreyju Rósu Stefánsdóttur.
Rut var í liði Íslands sem lék í fyrsta skipti í lokakeppni stórmóts í Árósum árið 2010 eða fyrir fjórtán árum síðan. Rut og Sunna Jónsdóttir eru þær einu í leikmannahópnum sem enn eiga sæti í landsliðinu en einhverjir leikmenn úr þeim hópi komu við sögu hjá félagsliðum á árinu eins og Karen Knútsdóttir og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir. Rut skoraði 6 mörk í leikjunum þremur í lokakeppni EM 2010.
Á meðfylgjandi mynd sækir Rut að marki Austurríkis í undankeppninni fyrir EM 2010. Leikurinn fór fram á Hlíðarenda haustið 2009 eða fyrir rúmum fimmtán árum. Myndina tók Eggert Jóhannesson sem enn myndar fyrir mbl.is og Morgunblaðið.
Ísland vann Austurríki 29:25 og átti sigurinn stóran þátt í því að Ísland komst í lokakeppni kvenna í fyrsta skipti. Skoraði Rut 3 mörk í leiknum en var þó einungis 19 ára gömul.
Rut er uppalin í HK en hefur einnig leikið með KA/Þór og nú Haukum hér heima en á Akureyri vann hún alla bikara sem í boði voru hér heima. Rut var í tólf ár í efstu deild í Danmörku en auk Tvis Holstebro og Esbjerg spilaði hún með Randers og Midtjylland.
Rut hefur leikið 122 A-landsleiki og skorað 245 mörk. Ef tölur yfir stoðsendingar og fiskuð víti væri á reiðum höndum þá væru þær upplýsingar eflaust mjög áhugaverðar í hennar tilfelli.